Framvindumat ESB á viðræðunum við Ísland
Brussel I.
Þegar umsögn starfsmanna ESB og niðurstaða framkvæmdastjórnar ESB um umsóknar- og aðildarferli Íslands frá 12. október 2011 er lesin vekur fyrst athygli hve mikil áhersla er lögð á að lýsa stjórnarfari íslenska lýðveldisins og baráttu gegn spillingu. Af skýrslunni mætti ráða að það hefði verið ráðamönnum ESB sérstakt áhyggjuefni hve mikill spilling ríkti á Íslandi. Þess er meðal annars sérstaklega getið að alþingi hafi staðfest sáttmála Sameinuðu þjóðanna gegn spillingu. Mætti álykta af þeim orðum að þessi staðfesting stæði í einhverjum tengslum við ESB-aðildarumsókn Íslendinga.
Við nánari eftirgrennslan um þessar áherslur kemur í ljós að þær endurspegla þá staðreynd að á sama tíma og rætt er við Íslendinga um aðild beinist meginathygli stækkunardeildar ESB að Balkan-löndunum, það er ríkjunum í fyrrverandi Júgóslavíu og einnig að Albaníu. Þegar Ŝtefan Füle, stækkunarstjóri ESB, kynnti heildarskýrslu stækkunardeildarinnar á blaðamannafundi miðvikudaginn 12. október lagði hann höfuðkapp á að minna áheyrendur sína á hve ESB væri annt um heilbrigða stjórnarhætti og hve andvígt það væri spillingu af öllu tagi en ekki síst meðal stjórnmálamanna og innan stjórnsýslunnar þar sem rík skylda hvíldi einnig á öllum að hafa mannréttindi í heiðri.
Í aðildarviðræðunum við Króata hömruðu fulltrúar ESB á því að stjórnvöld þar yrðu að sækja alla til saka sem lægju undir grun fyrir stríðsglæpi eða stjórnmálaspillingu. Gengu stjórnvöld í Zagreb hart fram í þessu bæði gagnvart fyrrverandi stríðshetjum og stjórnmálaforingjum. Fyrrverandi forsætisráðherra landsins, Ivo Sanader, var til dæmis framseldur frá Austurríki á liðnu sumri vegna ásakana um spillingu.
Framkvæmdastjórn ESB samþykkti miðvikudaginn 12. október að Serbar væru hæfir til að sækja um aðild að ESB. Það þýddi hins vegar ekki fyrir þá að sækja um fyrr en þeir hefðu leyst deilur sínar við Kósava á friðsamlegan hátt.
Í þessu andrúmslofti er rætt við Íslendinga um aðild og kvarði sem notaður er á ríkin í fyrrverandi Júgóslavíu eða Albaníu er notaður við gerð skýrslunnar um framvindu viðræðnanna við Ísland. Í niðurstöðum framkvæmdastjórnarinnar og raunar í skýrslunni sjálfri er hins vegar skautað yfir mál á einkennilegan hátt. Spurningar hljóta að vakna hverjir skrifi eða leggi til efni slík plögg. Heimildarmenn mínir segja að íslenskir stjórnarerindrekar sjái þessa texta ekki fyrr en þeir eru birtir að lokinni umræðu í framkvæmdastjórninni, það er þegar þeir eru birtir opinberlega.
Á Evrópuvaktinni birtist hinn 13. október ítarleg frétt um niðurstöður eða ályktun framkvæmdastjórnar ESB sem byggist á skýrslu starfsmanna hennar sem sinna málefnum Íslands sérstaklega.
Hér verður fréttin birt með athugasemdum við þau atriði sem sérstaka athygli vekja. Inndreginn er texti fréttarinnar en hitt eru athugasemdir mínar:
Framkvæmdastjórn ESB ber traust til ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur þar sem hún hafi lifað af innri átök. Þetta kemur fram í ályktun framkvæmdastjórnarinnar sem birt var miðvikudaginn 12. október en þar segir meðal annars: „Reynt hefur nokkrum sinnum á samheldni innan ríkisstjórnarinnar en hún staðist prófið. Á heimavettvangi er tekist á um ólík sjónarmið pólitískra afla og almennings til hugsanlegrar ESB-aðildar. Upplýsingamiðlun til að stuðla að upplýstri umræðum um aðildarferli Íslands er hafin.“
Það er í sjálfu sér merkilegt að framkvæmdastjórnin sjái ástæðu til að taka fram ríkisstjórn Jóhönnu hafi lifað af innri átök. Ástæða þess að frá þessu er skýrt kann að vera sú að innan framkvæmdastjórnarinnar geri menn sér grein fyrir því að lifi stjórnin ekki deyr aðildarferlið, engin önnur ríkisstjórn muni halda því áfram. Að vísu lífir framkvæmdastjórnin í þeirri von að með upplýsingamiðlun á hennar kostnað reynist unnt að halda lífi í aðildarferlinu.
Ályktunin sem er fimm blaðsíður byggist á 49 blaðsíðna skýrslu sérfræðinga ESB þar sem lagt er mat á stöðu stjórnmála, efnahagsmála og mannréttinda á Íslandi auk þess sem litið er á einstaka þætti sem rætt er um og snerta kröfur á hendur Íslendingum í samræmi við aðildarskilmála ESB og lagabálk ESB. Framkvæmdastjórnin bindur vonir við að með með upplýsingamiðlun í þágu „upplýstra umræðna“ takist að sannfæra Íslendinga um kosti þess að ganga í ESB en af hálfu sambandsins er nú varið 9 milljónum króna á mánuði eða 230 milljónum króna á tveimur árum til að upplýsa Íslendinga um ESB.
Framkvæmdastjórn ESB er einnig bærilega sátt við störf ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur: „Bæði ríkisstjórn og þing hafa haldið áfram að starfa vel. Stjórnlagaráði var komið á fót í apríl 2011 til að endurskoða stjórnarskrána. Lög voru einnig sett til að auka skilvirkni alþingis og stjórnsýslunnar.“
Fyrir Íslendinga er einkennilegt að ástæða þyki að taka fram ríkisstjórn og þing séu starfhæf. Í niðurstöðum framkvæmdastjórnarinnar er ekki sagt frá því hve illa var staðið að kjöri til stjórnlagaþings þótt það komi fram í framvinduskýrslu embættismannanna. Það er engu ríki til framdráttar að ekki sé unnt að framkvæma kosningar á lömætan hátt. Stjórnlagaráðið fengi á sig annan blæ ef sögð yrði sagan öll um það. Þegar notaður er kvarðinn frá Júgóslavíu fyrrverandi hefði mátt geta þess að íslensk stjórnvöld hefðu ekki getað staðið rétt að framkvæmd kosninga.
Framkvæmdastjórn ESB er þeirrar skoðunar að stjórnlagaráð og störf þess auðveldi Íslandi að ganga í Evrópusambandið og segir „að vel hafi miðað við að framkvæma tillögur sérstakrar rannsóknarnefndar alþingis um stjórnsýslulegar afleiðingar bankakreppunnar“. Í samræmi við tillögur rannsóknarnefndarinnar hafi landsdómur verið kallaður saman í mars til að fjalla um mál gegn fyrrverandi forsætisráðherra. Þetta hafi síðan leitt til ákæru um stórkostlega vanrækslu í maí 2011. Samhliða hafi sérstakur saksóknari haldið markvisst áfram störfum. Hann rannsaki fjölda mála vegna gruns um sviksamlega viðskiptahætti innan bankakerfisins, sem hafi leitt til þess að nokkrir hafi sætt handtöku.
Þarna gætir ótrúlegrar ónákvæmni. Geir H. Haarde var alls ekki ákærður að tillögu Rannsóknarnefndar alþingis heldur var tekin um það pólitísk ákvörðun af pólitískum andstæðingum hans á alþingi. Þá er störfum sérstaks saksóknara lýst á dramatískari hátt en réttmætt er.
Framkvæmdastjórn ESB lætur þess einnig getið að enn hafi verið unnið að því að efla dómskerfið og aðgerðir gegn spillingu. Nokkrir dómarar hafi verið skipaðir í samræmi við breytt dómstólalög og sáttmáli Sameinuðu þjóðanna gegn spillingu hafi verið staðfestur í febrúar 2011. Að því er varði hagsmunaárekstra þá hafi verið tekið til við það á Íslandi að setja sérstakar siðareglur fyrir ráðherra og ýmsa starfshópa.
Þessi kafli ber þess öll merki að hann sé skrifaður með önnur ríki í huga en Ísland.
Framkvæmdastjórnin ítrekar að vegna aðildar að EES sé Ísland almennt vel í stakk búið til að innleiða lagabálk ESB. Iceasave deilan sé þó óleyst. Í júní 2011 hafi Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) sent frá sér rökstudda skoðun þess efnis að Ísland hafi brotið gegn EES-samningnum. Framkvæmdastjórn ESB sé sammála ESA. Ríkisstjórn Íslands hafi svarað í lok september, ESA skoði nú málið.
Almennt gangi vel að innleiða það sem Íslendingum beri að gera til að fullnægja ESB-kröfum en þó frekar hægt. Að því er EES-löggjöf varðar standi Íslendingar vel að vígi, þótt finna megi hnökra.
Í ályktuninni er bent á að eftirfarandi atriði kunni að valda vandræðum í aðlögunarferlinu: fjármálaþjónusta, landbúnaður og dreifbýli, umhverfismál, sjávarútvegsmál, frjálst flæði fjármagns auk matvælaöryggis, dýra- og plöntusjúkdómar, skattar og tollar.
Að því er stjórnsýslu varði beri að huga að því að tryggja að nægur mannafli og nægt fé sé lagt af mörkum og verði lagt af mörkum til að vinna að nauðsynlegum undirbúningi vegna aðlögunar að ESB-aðild.
Lokaefnisgreinin um stjórnsýsluna sýnir að ESB telur ekki nóg að gert af hálfu íslenskra stjórnvalda vegna aðlögunar- og aðildarferlisins, leggja þurfi fram meira fé og auka mannafla af Íslands hálfu til að verða við kröfum ESB um aðildarundirbúning.
Stefna Íslendinga í landbúnaðarmálum og þróun dreifbýlis samræmist ekki ESB-lögum og óhjákvæmilegt er að breyta stjórnskipulagi á þessu sviði í samræmi við kröfur ESB.
Íslensk lög um matvælaöryggi, dýra- og plöntusjúkdóma falli ekki að ESB-lögum. Þá þurfi að huga sérstaklega að því að samræma löggjöf um lifandi dýr, vernd á plöntum.
Íslendingar hafi ekki tekið til við að laga sig að ESB-reglum í sjávarútvegi eða koma á fót stjórnkerfi til að framkvæma og hafa eftirlit með stuðningsaðgerðum ESB. Bann við fjárfestingu útlendinga í útgerð sé ekki í samræmi við ESB-lög.
Á sviði samgangna einkum að því er varðar land- og sjóflutninga hafi Íslendingar komið nokkuð til móts við ESB-kröfur. Hins vegar verði þeir að taka upp ESB-lög á ýmsum sviðum samgangna til að laga sig að kröfum ESB.
Á sviði orkumála verði að setja reglur um olíubirgðir, sjálfstæði eftirlitsaðila og orkunýtingu.
Huga verði að skattlagningu að því er varðar IT tengingar og samþættingu við IT-kerfi ESB.
Vegna væntanlegs myntsamstarfs skorti bæði lög og stjórnsýslu.
Bæta verði hagsýslu að því er varðar tölfræði um viðskipti, vinnumarkað og landbúnað.
Móta verði heildarstefnu í atvinnumálum.
Íslendingar verði að benda á stofnanir sem eigi að vinna að byggðastefnu.
Lög um réttindi borgara og persónuvernd séu ekki í samræmi við ESB-lög, staðfesta verði ýmsa samninga innan ramma Schengen-samstarfsins.
Enn hafi íslensk lög ekki verið sniðin að ESB-lögum um náttúruvernd og gæði vatns. Þá verði Íslendingar að laga sig að sjónarmiðum ESB í umhverfismálum á alþjóðavettvangi og staðfesta ýmsa alþjóðasamninga.
Neytendavernd verði að auka.
Gera verði umtalsverðar breytingar til að íslensk tollalög samræmist ESB-lögum og enn hafi ekki verið hafist handa við aðlögun sem sé forsenda þess að unnt verði að hrinda breytingum á tollalögum í framkvæmd við aðild.
Íslendingar verði að leggja sig meira fram á sviði þróunarsamvinnu og hjálparstarfs og gerast aðilar að Kimberley-ferlinu [um uppruna-staðfestingu á demöntum].
Áhersla Íslendinga á norðurslóðir árétti skuldbindingu þeirra um að verða virkir þátttakendur í svæðisbundnum samtökum í Norður-Evrópu.
Lítið hafi miðað við að setja lög um fjármálaeftirlit, marka verði skil á milli innri og ytri endurskoðunar. Enn beri að gera ráðstafanir til að tryggja betur fjárhagslega hagsmuni ESB.
Þegar litið er á einstök álitaefni kemur ekki neitt á óvart sem sagt er um landbúnað eða sjávarútveg. Hið sama er að segja um myntsamstarfið eða evruna, þar er akurinn með öllu óplægður og allt í óvissu innan ESB. Enginn veit á þessari stundu hvaða framtíðarreglur munu gilda um evruna.
Aðlögunarkröfur ESB lúta að því meðal annars að innleitt sé IT-nýtt kerfi á vegum fjármálaráðuneytisins vegna tolla, að íslensk hagsýsla sé endurbætt, að tryggðar séu olíubirgðir í landinu og svo framvegis. Sum atriðin eru tæknilegs eðlis önnur pólitísk.
Skýrslan um framvinduna í viðræðunum við Ísland eða ályktun framkvæmdastjórnar ESB ber ekki með sér að af hálfu ESB vilji menn fara hratt yfir, þvert á móti sýna skjölin að ekki sé unnt að flýta sér af því að mannafla og fé skorti af Íslands hálfu.