16.10.2011

Sunnudagur 16. 10. 11

Sunnudagur í miðborg Brussel einkennist af miklum mannfjölda sem nýtur þess að setjast niður á matsölustöðum eða kaffihúsum eða líta inn í hin mörgu og glæsilegu söfn borgarinnar. Við fórum á hádegistónleika sem kenndir eru við Astoria-hótelið en eru nú í hljóðfærasafninu vegna þess að hótelið er í andlitslyftingu. Fimm blásarar ásamt píanóleikara fluttu tónlist í klukkustund fyrir góðum hópi fólks á áttundu hæð í húsi við Place des Musées sem nú hýsir safnið eftir að Old England verslunin hvarf þaðan á brott.

Fréttastofa RÚV sló því að föstu í kvöldfréttum í dag að Páll Magnússon yrði ekki forstjóri Bankasýslu ríkisins. Hann var hins vegar  ráðinn á lögmætan hátt til starfans og á „vandaðan og faglegan“ hátt að mati stjórnarformanns bankasýslunnar. Fréttastofan hefur tekið afdráttarlausa afstöðu gegn Páli eins og ég rökstyð í grein sem ég skrifaði á Evrópuvaktina og lesa má hér.

Hið einkennilega er að í fréttum RÚV er aðeins sagt frá því sem er neikvætt fyrir Pál og ráðningu hans í starfið en ekki hinu sem sýnir að staðið var að ráðningunni á lögmætan hátt. Því miður er þetta hvorki í fyrsta né síðasta sinn sem hin óhlutdræga fréttastofa leggst í slíkan víking. Þetta er hins vegar með verri dæmum um misnotkun á hinni opinberu stofnun sem fréttastofan er. Skyldi enginn í stjórn RÚV hafa faglegan metnað til að taka á málum sem þessum?

Páll Magnússon var varaformaður útvarpsráðs og síðar stjórnar RÚV ohf. um fimm ára skeið. Sá grunur vaknar þegar fylgst er með framgöngu fréttastofu RÚV að þar telji einhverjir sig hafa harma að hefna gagnvart Páli.

Verði Páli bolað úr forstjórastarfinu hlýtur stjórn Bankasýslu ríkisins að segja af sér. Kannski er það skýringin á heift nokkurra stjórnarþingmanna í málinu?