Miðvikudagur 26. 10. 11
Enn komu leiðtogar ESB-ríkjanna saman til fundar hér í Brussel síðdegis í dag. Nú var látið minna með hvað mundi gerast á fundi þeirra en talið var fyrir viku. Þá hitti ég hér menn sem hafa aðgang að æðstu stöðum sem fullyrtu við mig að sunnudaginn 23. október yrði evru-vandinn leystur á sögulegan hátt. Þetta var áður en í ljós kom að Þjóðverjar og Frakkar voru ekki sammála. Á meðan þeir deila næst enginn árangur inna ESB og þó sérstaklega á innan evru-hópsins.
Þegar þetta er ritað hafa leiðtogar 10 ekki-evru ríkja yfirgefið fundarsalinn og 17 sitja enn sveittir yfir því hvernig bjarga eigi því sem bjargað verður. Angela Merkel sagði í þýska þinginu í dag að frá stríðslokum hefði ekki sambærileg krísa komið upp í Evrópu - félli evran, félli Evrópusambandið. Hún fékk umboð þingsins og er bundinn af því. Hún styrkir stöðu sína jafnt og þétt í evru-hópnum. Sarkozy rífur kjaft en má sín ekki mikils því að yfir Frökkum vofir að matsfyrirtæki lækki lánshæfiseinkunn þeirra.
Heitstrengingar um að bjarga evrunni og það skuli sko takast minna dálítið á talið um að Íslendingar eigi víst eftir að njóta skilnings hjá ESB, mönnum detti aldrei í hug að ofbjóða neinni þjóð í klúbbnum. Fréttir berast hins vegar frá Grikklandi um að þar tali menn nú um land sitt sem nýlendu undir stjórn ráðandi afla á evru-svæðinu. Skyldi engum nema Grikkjum þykja að freklega hafi verið gengið á rétt þeirra og grískra stjórnvalda?