6.10.2011

Fimmtudagur 06. 10. 11

Eins og sjá má hér átti ég þess kost sumarið 1999 að sækja kynningarfund hjá Apple í New York og hlusta á Steve Jobs kynna nýjung fyrirtækis síns. Nú þegar hann er allur langt um aldur fram og hvarvetna minnst fyrir að hafa markað þáttaskil fyrir allt mannkyn með hugviti sínu og dugnaði fær minningin um þennan fund nýtt gildi.

Á sínum tíma hafði ég ánetjast Makkanum en þegar ég settist á þing var þess krafist að ég hæfi að nota PC og hef ég haldið mig við þá tækni síðan, eða í 20 ár. Þar með hef ég farið á mis við nýjungarnar sem Steve Jobs kynnti og hafa valdið þáttaskilum. Þrátt fyrir að víða sé lagt hart að mér að eignast iPad hef ég staðist þrýstinginn.

Ég sé að einhverjir kveinka sér undan því að ég ítreka skoðun mína á nauðsyn góðs tónlistarsalar hér á síðunni í gær og geri gys að ungum sjálfstæðismönnum fyrir að fjargviðrast yfir húsi sem þegar er risið þrátt fyrir andstöðu þeirra.

Einkennilegast við viðbrögðin er að nú fallast í faðma smáfuglarnir á AMX og höfundur Sandkorns DV. Skyldi Reynir Traustason hafa tekið ofan hattinn í tilefni dagsins? Ætli þetta marki nýja tíma í álitsgjöf í netheimum?