24.7.1999

Macworld í New York

Árlega er efnt til mikillar sýningar á vegum Apple í New York, þar sem kynnt er hið nýjasta, sem er á döfinni og skýrt frá árangri síðustu mánaða. Hef ég aldrei farið á stórkynningu af þessu tagi á vegum tölvufyrirtækis en tók mér ferð á hendur að þessu sinni, þar sem megináherslan var lögð á tölvur til skólastarfs. Brá svo við að Apple-umboðið hér kom því um kring, að við gátum nokkrir Íslendingar, sem sóttum sýninguna, átt fundi með forráðamönnum Apple innan þeirrar deildar fyrirtækisins, sem sinnir sérstaklega þörfum skóla og menntastofnanna. Einnig hittum við yfirmenn Apple í Evrópu.

Hápunktur sýningarinnar var að morgni miðvikudagsins 21. júlí, þegar Steve Jobs, stofnandi Apple og núverandi forstjóri, kynnti árangur liðinna mánaða og hvert stefndi hjá fyrirtækinu. Hann benti á, að ekki væri eitt ár liðið, frá því að iMac-inn kom á markað en á þeim mánuðum, sem liðnir væru, hefðu framleiðendur hugbúnaðar kynnt 3.935 tegundir af nýjum búnaði fyrir Macintosh. Framleiðendur alls kyns tækjabúnaðar, sem tengjast Macintosh, hefðu kynnt 1.053 nýjar framleiðsluvörur. Sagði hann, að nú væri unnt að velja úr 13.100 vörum af ýmsu tagi fyrir Macintosh. Hlutur Apple á einkatölvumarkaðnum hefur vaxið úr 5% hlutdeild fyrir ári í 12%, um það bil 90% notenda iMac fara á tölvunni um netið og um 33% af kaupendum iMac eru að eignast tölvu í fyrsta sinn. Fram kom, að á um 50% heimila í Banadríkjunum eru tölvur og aðgangur almennings þar að netinu er minni en hér á landi.

Þá kynnti Jobs nýja tölvu, það er iBook, sem er fartölva sérstaklega hönnuð með skóla í huga, í henni eru tengingar á netið og einnig diskadrif. Með tölvunni er unnt að kaupa háhraða-búnaðinn Airport, sem gerir kleift að tengja 10 iBook-tölvur þráðlaust saman og hverja um sig inn á netið. Þannig er unnt að losna við snúrur og tengingar úr skólastofunni. Nýja fartölvan er 300 mhz og með batteríi, sem endist í sex klukkustundir, þannig að nemendur þurfa ekki að taka með sér hleðslusnúrur í skólana. Þá er handfang á tölvunni, sem gerir kleift að halda á henni eins og skólatösku, hún er um 3 kg og útlit hennar tekur mið af iMac-anum. Verðið á tölvunni er 1599$. Til að nýta sér Airport þarf að kaupa kort fyrir 99$ og síðan tækið sjálft fyrir 299$. Í The New York Times las ég daginn eftir, að sérfræðingar teldu iBook-tölvuna í sjálfu sér merkilega en þráðlausa tæknin væri töfralausn og vegna þessa nýja búnaðar væri Apple níu mánuðum eða ári á undan keppinautum sínum. Fram til þessa hafi fartölvur ekki beinlínis verið miðaðar við hinn almenna notanda en nú hefði Apple skapað nýja viðmiðun og yrðu aðrir að laga sig að henni.

Steve Jobs talaði blaðalaust í um 90 mínútur og var fróðlegt að fylgjast með því, hvernig hann bar sig að við að halda athygli áhorfenda í svo langan tíma, það gerði hann meðal annars með því að kalla aðra til liðs við sig upp á sviðið til að kynna einstakar nýjungar. Hann hefur náð miklum árangri sem leiðtogi Apple en kallað var í hann, eftir að hann hafði sagt skilið við fyrirtækinu, til að bjarga því, þegar margir töldu það vera að komast í þrot. Í samtölum við samstarfsmenn hans kom fram, að hann skiptir sér af stóru og smáu innan Apple, svo mjög að ýmsum þykir nóg um það. Í þessari ræðu sinni lagði hann áherslu á það, að á innan við ári hefði fyrirtækinu tekist að snúa vörn í sókn og með iBook mundi sóknin enn herðast. Var gerður góður rómur að máli hans og átti hann greinilega marga fölskvalausa aðdáendur í þessum fjölmenna hópi áheyrenda. Sannaðist þarna, að Jobs á mjög auðvelt með að koma boðskap sínum á framfæri með frjáslegum hætti.

Í tengslum við sýninguna gafst okkur tækifæri til að kynnast reynslu í sænskum framhaldsskóla af því, að þar hafa allir nemendur sína fartölvu frá skólanum og nota hana jafnt innan veggja hans og heima hjá sér. Var fróðlegt að hitta starfsfólk skólans og ræða þessa nýjung í skólastarfi, sem verður sífellt tæknilega auðveldara að hrinda í framkvæmd. Er ekki vafi á því, að við Íslendingar verðum með skipulegum hætti að huga að leiðum til þess.

Á sýningunni gafst einstakt tækifæri til að kynnast því nýjasta, sem er í boði bæði varðandi tækja- og hugbúnað. Skilin milli tölvu, sjónvarps og síma eru sífellt að verða minni. Verður tölvan þannig enn öflugra fjarkennslutæki.

Þróunin er svo hröð í tölvuheiminum, að erfitt er að segja fyrir um það, hvað gerist næst. Til dæmis lagði Apple mikla áherslu á að halda leynd yfir iBook-tölvunni, þar til Jobs kynnti hana í ræðu sinni, og oftar en einu sinni kom fram í viðræðum við starfsmenn Apple, að þeim væri bannað að tala um væntanlegar framleiðsluvörur. Hitt er ljóst, að seljist iBook eins mikið og vænst er, markar það þáttaskil í tölvunotkun, því að tækin verða við höndina hvar sem er og unnt er með sífellt auðveldari að tengjast inn á netið.

Nokkur ár eru síðan ég kom síðast til New York. Fáar borgir iða af meira lífi og er það eitt sérstakt að ganga um göturnar með skýjakljúfana allt um kring.

Mér gafst tækifæri til að hitta forráðamenn American Scandinavian Foundation og ræða við þá um nýbygginguna Scandinavian House – Nordic Center in America, sem verið er að reisa í hjarta Manhattan, á Park Aveune milli 37. og 38. strætis. Er ekki að efa, að þetta nýja hús, sem ætlunin er að vígja formlega 20. október 2000, á eftir að stórbæta aðstöðu Norðurlandanna til almannatengsla í stórborginni.

Dagana þrjá, sem ég dvaldist í borginni, var hitinn bærilegur. Umferðin út á JFK-flugvöll síðdegis á fimmtudegi var mikil og miðaði hægt, enda heyrði ég tilkynnt í fyrsta sinn, að fresta yrði flugi vegna þess að áhöfn vélarinnar hefði ekki komist í tæka tíð á flugvöllinn vegna umferðaröngþveitis á leiðinni frá Manhattan. Flugleiðavélin lagði af stað á réttum tíma frá flugstöðinni en það tók hana um 100 mínútur að komast í loftið vegna mikillar umferðar og seinkunar á JFK-flugvelli. Voru tafirnar raktar til þrumuveðurs fyrir norðan New York og sáum við eldglæringarnar frá því, þegar við héldum norðaustur yfir á Atlantshafið.