3.10.2011

Mánudagur 03. 10. 11

Þegar stjórnarflokkarnir standa illa taka forystumenn þeirra og spunaliðar að tala um „fjórflokkinn“ og vandræði hans. Þeir kjósa að breyta eigin vanda í vandamál allra stjórnmálaflokka og fá hljómgrunn hjá hliðhollum fjölmiðlamönnum. Steingrímur J. Sigfússon notaði sama trikkið í umræðunum um stefnuræðu forsætisráðherra þegar hann sagði vissulega rétt að mótmælendur á Austurvelli flyttu ekki stuðning við ríkisstjórnina þeir lýstu ekki heldur stuðningi við Sjálfstæðisflokkinn, þeir mótmæltu í raun öllum flokkum og þingmönnum. Ég sé ekki betur en á visir.is sé þessi orð Steingríms J. fyrirsagnarefni - spuninn er hafinn.

Ólafur Þ. Harðarson prófessor sagði í RÚV í kvöld að pólitísk og félagsleg kreppa væri alvarlegri vandi í samfélaginu en hin efnahagslega kreppa. Pólitíska kreppan setur nú sífellt sterkari svip á samskipti ríkisstjórnar og forseta Íslands.

Forsetinn tók ríkisstjórnina í kennslustund í stjórnmálafræði við þingsetningu og sagði ráðherra verða áhrifalausa yrðu tillögur stjórnlagaráðs að ákvæðum í nýrri stjórnarskrá. Jóhanna Sigurðardóttir sat ríkisráðsfund með forseta um miðjan dag 3. október og sagði eftir þann fund að ekkert hefði verið minnst á ágreining við forseta af hálfu ráðherra. Hún kaus hins vegar að gera það á harkalegan hátt í stefnuræðunni. Steingrímur J. og síðan Svandís Svavarsdóttir véku einnig gagnrýnisorðum að gamla flokksbróður sínum, Ólafi Ragnari.

Á þremur dögum hefur þjóðin orðið vitni að því í beinni útsendingu frá alþingi að bullandi ágreiningur er milli ríkisstjórnar og forseta. Þingmenn vinstri-grænna stæra sig af því að hafa sýnt Ólafi Ragnari óvirðingu við þingsetninguna.

Þessi dónaskapur er einsdæmi ekki síður en fjarvera fulltrúa hæstaréttar við þingsetningu. Skyldu dómarar hafa ákveðið að láta ekki sjá sig til að mótmæla viðbrögðum meirihluta alþingis við ákvörðun réttarins um að ógilda kosningarnar til stjórnlagaþings? Forseti þingsins sér ástæðu til að finna að fjarvera dómara hæstaréttar - hefur þingforsetinn gagnrýnt þingmenn fyrir að sýna forseta lýðveldisins óvirðingu þegar hann er gestur þingheims í alþingishúsinu?