25.10.2011

Þriðjudagur 25. 10. 11

Páll Magnússon, nýráðinn forstjóri Bankasýslu ríkisins, sagði starfinu lausu í dag. Er það eðlileg afleiðing afsagnar stjórnar Bankasýslu ríkisins. Ástæða þessa umróts eru pólitísk afskipti. Þar hefur Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, tekið mest upp í sig af hneykslan.

Sama dag og frá afsögn Páls er skýrt birtir Björgólfur Thor Björgólfsson á vefsíðu sinni:

„Rúmri viku eftir að búnaði í gagnaver Verne Global var skipað upp í Helguvík er enn unnið að því að koma honum fyrir í gagnaverinu á Ásbrú. Gagnaverið tekur til starfa í byrjun næsta árs. [...] Fjárfestingarfélag mitt, Novator, átti frumkvæði að stofnun eignarhaldsfélagsins Verne Holdings.

Til þess að gagnaverið yrði hér á landi þurfti pólitíska hagsmunamiðlun gagnvart alþingismönnum. Vilhjálmur Þorsteinsson annaðist hana. Vilhjálmur hlaut endurkjör sem gjaldkeri Samfylkingarinnar á landsfundi um síðustu helgi. Skyldi Helga Hjörvar ekki þykja neitt athugavert við þetta úr því að ekki mátti ráða Pál Magnússon sem forstjóra Bankasýslu ríkisins af því að hann starfaði sem aðstoðarmaður ráðherra áður en Samfylkingin settist í ríkisstjórn vorið 2007?

Skinhelgi er helsta einkenni Samfylkingarinnar. Hún fær á sig nýja vídd þegar Helgi Hjörvar er boðberi hennar.