8.10.2011

Laugardagur 08. 10. 11


Viðtal mitt við Snorra Magnússon, formann Landssambands lögreglumanna, er komið á netið og má sjá það hér.

Ung vinstri græn héldu landsfund sinn á Suðureyri 1. og 2. október og ályktuðum um ýmis mál eins og til dæmis grunnlaun presta sem þau telja of há. Þá ályktuðu þau um störf Svandísar Svavarsdóttur umhverfisráðherra og sögðu henni hefði „tekist með mikilli seiglu að breyta umhverfisráðuneytinu úr þægilegri afgreiðslu fyrir leyfisveitingar vegna misgáfulegra stóriðjuverkefna á landinu í það að vera málsvari náttúrunnar“. Í þessum orðum felst andstaða við réttarríkið, það er að ráðherrar og stjórnvöld almennt skuli starfa eftir lögum en ekki eigin geðþótta. „Málsvari náttúrunnar“ hefur heimild til að fara sínu fram hvað sem landslögum líður. Hin sama hugsun kom fram hjá Árna Finnssyni náttúruverndarsinna þegar hann harmaði að ekki væru nægilega margir umhverfissinnar í nefnd alþingis sem fjallar um umhverfismál.

Ung vinstri græn telja ekki aðeins að lög og stjórnsýslureglur eigi að víkja í umhverfismálum heldur einnig í málefnum hælisleitenda. Þau segja:

„Það er siðferðislega rangt að skýla sér á bak við Dyflinnar-sáttmálann og vísa hælisleitendum aftur til annarra landa í Evrópu og síst til þess fallið að bæta vandann hnattrænt. Af sömu sökum skal Ísland ekki miða sig við önnur lönd í afgreiðslu á málum hælisleitenda heldur bæta stöðu þeirra sem hingað leita á eigin forsendum. Grundvallarhugsunin á bak við vinnslu umsókna ætti ávallt að vera að veita hælisleitendum nauðsynlega aðstoð út frá siðferðislegu mati og mannúðarsjónarmiðum en ekki út frá því hve lítið er hægt að gera með tilliti til reglugerða.“

Ísland er aðili að reglunum sem kenndar eru við Dublin og snúast um réttindi hælisleitenda, þá er landið einnig aðili að öðrum reglum sem gilda um útlendinga og för þeirra samkvæmt aðild sinni að evrópska efnahagssvæðinu. Íslensk útlendingalög taka mið af þessum þjóðréttarlegu skuldbindingum. Ung vinstri græn vilja að þessu sé vikið til hliðar og harma „jafnframt að staða hælisleitenda sé enn ófullnægjandi þrátt fyrir að þessi málefni séu nú í höndum ráðherra úr röðum Vinstri grænna“.

Að samtök innan ríkisstjórnarflokks álykti á þennan veg gegn gildandi lögum og reglum í landinu og fagni því að annars vegar að einn ráðherra flokksins fari ekki að lögum og harmi hins vegar að annar ráðherra geri það lýsir vel í hvet óefni er komið undir ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar.