Þriðjudagur 11. 10. 11
Ég sé að smáfuglar AMX jagast í mér vegna skoðana minna á Hörpu og líkja mér annars vegar við Papandreou í Grikklandi og hins vegar við don Alfredo í Orkuveitu Reykjavíkur - það er ekki leiðum að líkjast! Kvakið fer hins vegar inn um annað og út um hitt enda lýsir það betur smáfuglum í skammarkrók en mér.
Á leiðinni í flugvélinni las ég bók Jóhanns Haukssonar um þræði valdsins. Þar er skautað yfir ýmis mál án þess að segja annað um þau en það sem Jóhanni hentar til sverta Sjálfstæðisflokkinn. Ég gef mér betri tíma síðar til að skrifa um bókina. Að þeir Ævar Kjartansson og Jón Ormar Halldórsson kalli á Jóhann til að ræða um landið sem rís í útvarpinu minnir aðeins á allar greinarnar sem þau Jóhanna og Steingrímur J. hafa skrifað um sama efni án þess að nokkuð gerist.