15.10.2011

Laugardagur 15. 10. 11

Veðrið hefur verið mjög gott þessa daga sem við höfum dvalist í Brussel, sólríkt og bjart en greinilega er farið að kólna í lofti eins og finnst þegar gengið er í skugganum.

Ég skrifaði í dag leiðara á Evrópuvaktina og lýsti undrun minni yfir viðbrögðum ráðamanna við skýrslu tveggja sænskra sérfræðinga um öryggismál Íslands. Að óreyndu hefði ég haldið að ráðherrar og formaður utanríkismálanefndar alþingis hefðu fagnað því að erlendir sérfræðingar beindu athygli að stöðu Íslands við gjörbreyttar aðstæður í öryggis- og varnarmálum. Því er hins vegar ekki að heilsa.

Fyrir 40 árum sat hér vinstri stjórn sem hafði brottför varnarliðsins á stefnuskrá sinni. Hún fékk sænskan sérfræðing Ake Sparring frá sömu stofnun og höfundar nýju skýrslunnar til að semja fyrir sig skýrslu um stöðu Íslands í öryggismálum. Þótti þetta nokkrum tíðindum sæta en ég minnist þess alls ekki að nokkrum hafi dottið í hug að bregðast við ályktunum sérfræðingsins á sama hátt og stjórnarherrarnir gera nú.