21.10.2011

Föstudagur 21. 10. 11

Á visir.is  segir 21. október „Formaður Samfylkingarinnar [Jóhanna Sigurðadóttir] segist ætla að ljúka aðildarviðræðum við ESB fyrir kosningar árið 2013. Til þess verks hafi flokkurinn verið kosinn. Landsfundur Samfylkingarinnar var settur síðdegis í dag.“

Þegar ég spyr Brussel-menn um tímasetningar varðandi aðild Íslands og viðræðurnar vilja þeir engan tíma nefna. Þegar ég segi að Jóhanna og Össur Skarphéðinsson tali eins og að ofan segir er svarið: „Stjórnmálamenn ráða því hvað þeir segja til heimabrúks. Það stjórnar ekki ferð okkar hér í Brussel.“

Vandinn við umræður um umsókn Íslands er að enginn alþjóðlegur fjölmiðill hefur auga á viðræðunum, gangi þeirra eða til að leggja mat á yfirlýsingar framkvæmdastjórnar ESB og ríkisstjórnar Íslands. Í þessu tómarúmi blakta ábyrgðarlausir álitsgjafar á borð við Egil Helgason sem stjórnast af tilfinningum í stað staðreynda eða fréttaskýrendur eins og þeir sem lýsa ESB-viðræðunum í Fréttablaðinu og Speglinum á vegum RÚV svo að ekki sé minnst á fræðimenn á bor við Eirík Bergmann Einarsson.

Þegar ummæli Jóhönnu eru lesin ber að spyrja: Ætlar forsætisráðherra Íslands að segja við ESB: Við  ljúkum við viðræðunum 2013 eða íslensk stjórnvöld hverfa frá þeim. Hvers vegna spyr enginn íslenskur fjölmiðill Jóhönnu að þessu? Er hún að ögra ESB? Jóhanna ertu að setja „deadline“ á viðræðurnar? Hvað sagði Stefan Füle við því?