14.10.2011

EES-samningurin lifir góðu lífi og dafnar

Brussel II


Undir lok tíunda áratugarins og við aldamótin heyrðist því oft haldið fram í umræðum um Evrópumál á Íslandi að við yrðum að hugsa okkur til hreyfings gagnvart Evrópusambandinu því að EES-samningur okkar við það væri að renna sitt skeið. Sagt var að í höfuðstöðvum ESB í Brussel vissi enginn um tilvist hans og fengist hann ekki endurnýjaður á einhvern hátt mundi hann verða að einskonar hengingaról EES-ríkjanna utan Evrópusambandsins.

Við ríkisstjórnarborðið kom oft til snarpra orðaskipta um málið því að við sátum þar nokkrir sem drógum réttmæti þessara svartsýnu fullyrðinga um líf samningsins í efa. Ég gerði það meðal annars sem menntamálaráðherra af því að ekkert benti til þess að samstarfið á grundvelli samningsins um menningarmál, menntamál, tækni- og vísindamál stæði höllum fæti. Undraðist ég sérstaklega þegar látið var í veðri vaka að sérstök hætta steðjaði að hagsmunum okkar Íslendinga á þessu sviði.

Raunar hafði ég alltaf grun um að það sem lægi að baki þessu tali væri dulin viðleitni til að ýta undir þá skoðun að skynsamlegast væri að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Mönnum þætti ekki vænlegt til árangurs að berjast fyrir því á „gegnsæjan og upplýstan hátt“ svo að notað sér orðalag sem ESB-aðildarsinnum er tamt nú á dögum. Því væri betra að gera það með hræðsluáróðri um að öll tengsl okkar við ESB kynnu að rofna ef ekki yrði hafin viðræða við sambandið um aðild.

Sumarið 2004 skipaði Davíð Oddsson forsætisráðherra nefnd til að kanna tengsl Íslands og ESB og valdist ég til formennsku í nefndinni. Þá hafði ég kynnst annarri hlið á nánum tengslum Íslands við sambandið á grundvelli Schengen-samningsins. Hvatti ég til þess í nefndinni að þar ræddu menn ekki aðeins EES-tengslin heldur einnig hið mikilvæga Schengen-samstarf.

Nefndin birti skýrslu sína í mars 2007 þar sem bent er á að EES-samningurinn lifði góðu lífi og miklu skipti að Íslendingar ræktuðu tengsl sín við ESB á grundvelli hans og með virkri þátttöku í Schengen-samstarfinu. Að þessari niðurstöðu stóðu fulltrúar allra flokka á þingi. Enginn ágreiningur var í nefndinni um hinn lifandi EES-samning og ekki heyrðist efasemdarrödd um Schengen-samstarfið. Mönnum varð ljóst af kynnisferð til Europol í Haag að Schengen-samvinnan byggist á öðru og meiru en frelsi til að fara á milli landa án vegabréfs og utan Schengen yrðu Íslendingum flestar bjargir bannaðar vildu þeir eiga aðild að samvinnu við ESB-ríki um að sporna við hættum af frjálsri för manna sem má rekja til EES-samningsins.

Í dag, föstudaginn 14. október, átti ég þess að kost hér í Brussel að endurnýja þekkingu mína á stöðu EES-samningsins. Hann lifir enn góðu lífi og nýtur jafnvel meira álits innan ESB en áður, eftir að ráðherraráð ESB fól starfsliði sínu að gera úttekt á samingnum og ályktaði síðan um hann 14. desember 2010.

Þar segir að góð samskipti ESB og EFTA-ríkjanna fjögurra (Íslands, Liechtensteins, Noregs og Sviss) hafi talist mjög góð og náin árið 2008 þegar síðast var farið skipulega í saumana á þeim en síðan (til loka árs 2010) hafi þau enn aukist. Ráðherraráðið vilji halda áfram að dýpka samstarfið við EFTA-ríkin á komandi árum.

Ráðherraráðið þakkaði EES-ríkjunum (Noregi, Liechtenstein og Íslandi) fyrir framlag þeirra til þróunarsjóðs EES-svæðisins. Minnt var á að Ísland, Liechtenstein og Noregur væru aðilar að innri markaði ESB með EES-samningnum frá 1994. Samningurinn þjónaðii hlutverki sínu vel þegar aðilar hans innleiddu skipulega þau ESB-lög sem snerta innri markaðinn í landsrétt hjá sér. Ráðherraráðið fagnaði því sérstaklega hve vel EFTA-ríkin hefðu staðið við sinn hlut samkvæmt samningnum.

Ráðherrarnir sögðust af áhuga fylgjast með því að í Noregi og Liechtenstein hefði verið hafist handa við ítarlegt mat á reynslu þeirra af EES-samningnum. Hvatti ráðherraráðið til þess að hið sama yrði gert af hálfu ESB og síðan myndu fulltrúar aðila bera saman bækur sínar. Því var fagnað að ESB-aðildaviðræður hefðu hafist við Íslendinga en jafnframt var tekið fram að Ísland yrði EES-EFTA-ríki á meðan viðræður stæðu.

Að þessu sinni verður ekki farið frekar í saumana á þessari ítarlegu ályktun. Hún sýnir hins vegar svart á hvítu að EES-samningurinn lifir góðu lífi. Á vegum EFTA er haldið úti öflugri skrifstofu í Brussel sem er bakhjarl EES-ríkjanna í samskiptum þeirra við framkvæmd EES-samningsins en hins vegar er það undir einstökum ríkjum komið hve mikla áherslu þau leggja á þátttöku í sérfræðinefndum ESB við undirbúning ESB/EES-löggjafar. Því miður hefur ekki verið lögð nægjanleg rækt við þennan þátt af Íslands hálfu og íslenskir stjórnmálaflokkar og alþingi hafa ekki gert neitt marktækt til að fylgjast með og gæta hagsmuna Íslands á vettvangi ESB-þingsins sem er mikill upplýsingabrunnur þótt deila megi um áhrif þess.

Vegna þróunarsjóðs EES hefur orðið til 50 manna skrifstofa undir merkjum EFTA í Brussel sem sér um alla framkvæmd við ráðstöfun á þeim fjármunum sem renna frá Noregi, Íslandi og Liechtenstein til að skapa efnahagslegt jafnvægi innan ESB. Norðmenn leggja til 97% af þessu fé og hafa auk hins sameiginlega sjóðs stofnað sérstakan sjóð á eigin vegum í sama skyni.

EFTA kemur ekkert að framkvæmd Schengen-samstarfsins hún er alfarið í höndum aðildarríkjanna. Segja verður þá sögu eins og er að íslensk stjórnvöld hafa hin síðari ár hætt að halda úti sérstökum starfsmanni í Brussel til að hagsmunagæslu vegna Schengen og því miður hefur þekking á Schengen-málefnum snarminnkað fyrir bragðið innan stjórnsýslunnar sem er stórskaðlegt og í hróplegri andstöðu við markmið núverandi ríkisstjórnar sem stendur að aðildarviðræðum við ESB.

Í sjálfu sér er fráleitt og furðulegt að verja fé og mannafla til að ræða aðild Íslands að ESB undir því yfirskyni að með því sé fullveldi landsins aukið vegna meiri áhrifa í Brussel en láta á sama tíma hagsmunagæslu vegna núgildandi samstarfs verða að engu. 

Í stuttu máli eru hrein ósannindi að íslensk stjórnvöld hafi ekki áhrif á mótun ESB- og Schengen-reglna eins og nú er í pottinn búið. Tækifærin til þess eru einfaldlega ekki nýtt. Að telja einhverjum sem til þekkir trú um að Íslendingar hafi burði til þess að fylgjast svo með öllu því sem gerist á vettvangi ESB kæmi til aðildar að fullveldi þjóðarinnar ykist er tilgangslaust. Þessu er hins vegar blákalt haldið fram við almenning undir merkjum „gegnsærrar og upplýstrar“ umræðu.

Oft var því slegið fram að Íslendingar yrðu að hugsa sér til hreyfings gagnvart ESB af því að Norðmenn myndu örugglega sækja um ESB-aðild í þriðja sinn og þá yrði EES-samningurinn ónýtur. Það yrði til dæmis ekki unnt að halda úti eftirlitskerfi með framkvæmd hans sem er lykilatriði af hálfu ESB.

Nú eftir að Íslendingar hafa sótt um aðild hugsa Norðmenn sér ekkert til hreyfings. Spár hafa ekki ræst um að eina leiðin til að vekja að nýju aðildaráhuga í Noregi væri að Íslendingar hreyfðu sig. Andstaða við ESB-aðild hefur aldrei verið meiri í Noregi.

ESB hefur lýst yfir því að EES-samningurinn gildi áfram gagnvart Noregi og Liechtenstein þótt svo fari að Ísland gangi í ESB. Enginn efast um að unnt verði að leysa eftirlitsþáttinn á viðundandi hátt.

Það er ekki nóg með að ESB vilji áfram eiga EES-samstarf við Noreg og Liechtenstein heldur hefur sambandið hreyft því við Svisslendinga að þeir gangi í EES. Því er illa tekið í Sviss enda felldu Svisslendingar EES-aðild á sínum tíma í þjóðaratkvæðagreiðslu. ESB hefur gert 120 tvíhliða samninga við Sviss og unir því ekki að haldið verði áfram á sömu braut. Óhjákvæmilegt sé að koma á fót einhvers konar kerfi að EES-fyrirmynd. Talið er að skriður kunni að komast á málið eftir næstu þingkosningar í Sviss.

Þá vill ESB einnig koma á annars konar samvinnu en nú er við örríkin í Evrópu: Andorra, Mónakó, San Marínó og Vatíkanið. ESB hefur jafnvel hreyft því að þessi ríki fari undir EES-regnhlífina á einhvern hátt. Þessi ríki hafa tekið upp evru þótt þau séu ekki í ESB sem sannar að því er ranglega haldið fram að ESB geti ekki samið við ríki um upptöku evru án aðildar að sambandinu, 111. gr stofnsáttmála ESB heimilar slíka samninga.

Fram undir lok síðasta árs var EES-samningurinn „rekinn“ af deild í framkvæmdastjórn ESB. Eftir að breyting varð á skipulagi sambandsins við stofnun utanríkismáladeildar eða utanríkisþjónustu þess var EES-samningurinn og „rekstur“ hans af hálfu ESB fluttur þangað og nú er barónessa Ashton æðsti embættismaður ESB gagnvart EES-ríkjunum. Vissulega má draga í efa að hún hafi mikla þekkingu á EES. Hitt er hins vegar alrangt að álykta sem svo að það segi alla söguna um þá virðingu sem samningurinn nýtur innan ESB hvort heldur meðal embættismanna eða ráðherra aðildarríkjanna.

Að Alþingi Íslendinga skuli hafa stigið skref til aðildar með umsókninni frá 16. júlí 2009 byggist ekki á hlutlægu mati á því hvað sé hagsmunum Íslands fyrir bestu heldur stundarhagsmunum í pólitísku þrefi.  Það byggist öðrum þræði á blekkingum um eðli EES-samningsins og vanrækslu við að nýta hann. Að þeir sem þannig hafa staðið að málum í áranna rás seu betur í stakk búnir til hagsmunagæslu sem aðilar að ESB stenst ekki neina skoðun.