ESB-einfeldni ríkisstjórnar Íslands vekur undrun í Brussel
Brussel IV
Eitt er að hitta embættismenn ESB, framkvæmdastjórnar eða ráðherraráðs, sem hafa það hlutverk að stækka ESB, eða ESB-þingmenn sem horfa á sambandið frá sjónarhóli þeirra sem hafa barist fyrir að ná kjöri á þing þess eða loks fjölmiðlamenn sem eru á áhorfendapöllunum og horfa á ESB-sirkusinn í návígi.
ESB-embættismennirnir starfa samkvæmt umboði sínu. Þegar þeir sinna aðildarumsókn ríkis sem ráðherraráð ESB hefur talið verðugt til að hljóta sess umsóknarríkis verður það metnaðarmál embættismannanna að ætlunarverkið takist, að það sannist að ráðherrarnir höfðu rétt fyrir sér, umsóknarríkið sé hæft til aðildar eftir að það hefur gengið í gegnum hreinsunareld embættismannanna.
Ísland er nú í þessum hreinsunareldi. Andstaða þjóðarinnar við aðild er meiri en embættismennirnir hafa átt að venjast hjá þeim 12 þjóðum sem síðast hafa gengið í ESB. Þess vegna vilja þeir ekki binda sig við neina dagsetningu um lok viðræðna en segja hins vegar fyrir sinn heimamarkað, ráðherraráðið og ESB-þingið, að þeir séu að hefja áróðursherferð á Íslandi í þágu ESB. Hún taki nokkurn tíma, að minnsta kosti tvö ár frá ársbyrjun 2012; í ársbyrjun 2014 kunni Íslendingar að hafa móttekið nóg af kynningarefni um ESB til að huga að megi að lyktum samninga.
Þótt Jóhanna Sigurðardóttir segist vilja ljúka viðræðum við ESB fyrir kosningar á Íslandi í apríl 2013 er blásið á það í Brussel. Heimamarkaður stjórnmálamanna á Íslandi skiptir minna máli en heimamarkaður embættismannavaldsins í Brussel. Hið sérkennilega er að annars vegar talar forsætisráðherra Íslands á þennan veg og hins vegar er viðræðunefnd Íslands algjörlega í höndum embættismanna ESB hvort heldur er um að ræða tímasetningar eða aðlögunarkröfur ESB. Hér stjórnar ESB alfarið sirkusnum.
Þegar rætt er við ESB-þingmenn verður myndin sem við blasir fjölbreyttari. Sumir þeirra eru eindregnir talsmenn ESB og stækkunar sambandsins. Þeir skilja einfaldlega ekki að í huga nokkurs Íslendings sé minnsti vottur af vafa um hvort skynsamlegt sé að ganga í ESB, að sjálfsögðu felist mesta gæfa nokkurrar þjóðar í aðild að þessum einstaka klúbb. Aðrir telja hlutverk sitt að stemma stigu við stækkun ESB og útþenslu þess á öllum sviðum. Loks eru þeir sem beinlínis hallmæla ESB-þinginu sé valdalausu þar sem merkikerti njóti sín í þeirri trú að þau hafi eitthvað að segja um framvindu ESB-mála.
Einn ESB-þingmanna sagði við mig: Þú áttar þig á því að ESB er mikið í mun á þessum krepputímum þess að láta eins og allt gangi sinn vana gang; þess vegna finnst þeim gott að geta bent á að Íslendingar haldi áfram aðlögunarferli sínu þrátt fyrir evru-kreppuna og aðra óárán sem herjar á sambandið.
Það er einmitt sú afstaða íslenskra stjórnvalda að láta eins og ekkert hafi í skorist síðan þau sóttu um aðild sumarið 2009 sem vekur undrun fjölmiðlamanna. Þeir skilja ekki hvernig nokkurri þjóð dettur í hug að tala nú um aðild að ESB og evrunni eins og ekkert sé sjálfsagðara. Þeir sem horfa á sirkusinn úr návígi átta sig á því að hann getur ekki haldið áfram eins og ekkert hafi í skorist og þess vegna skilja þeir ekki að nokkrum manni detti í hug að sækja um aðild að honum, umsækjandinn hafi ekki minnstu hugmynd um inn í hvaða leikgerð hann sé að ganga eða hvers verði krafist af honum.
Eiríkur Bergmann Einarsson, ESB-fræðingur á Bifröst, skrifaði grein fyrir helgi þar sem hann sagði að Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, stæði helst í vegi fyrir því að Íslendingar væru á hraðferð inn í ESB. Þá sagði hann að einnig ylli töfum í viðræðunum, eftir einkasamtöl sín, að sumir íslenskra viðmælenda ESB kynnu ekki ensku. Að láta þessi orð falla með spekingssvip fræðimannsins þegar hriktir í öllu Evrópusambandinu vegna innbyrðis ágreinings er til marks um dæmalausa þröngsýni.
Þeir sem horfa á ESB hlutlægum augum á líðandi stundu skilja ekki í því hvers vegna í ósköpunum forsætisráðherra Íslands lætur eins og ekkert sé sjálfsagðra en Íslendingar ljúki aðildarviðræðum fyrir apríl 2013 og þjóðinni sé best borgið með því að taka upp evruna.
Í hvaða heimi lifir þetta fólk? spyrja menn. Áttar það sig ekki á því að David Cameron, forsætisráðherra Breta, gat ekki fengið betri fréttir um sig eftir leiðtogafund ESB-ríkjanna 23. október en að hann hefði setið undir skömmum frá Nicolas Sarkozy, forseta Frakklands, fyrir að vilja segja evru-ríkjunum fyrir verkum, Cameron, sem fyrirliti evruna? Hvers vegna voru þetta svona góðar fréttir fyrir Cameron? Af því að það treysti stöðu hans í neðri málstofu breska þingsins 24. október þar sem hann verður að hafa á sér neikvæðan stimpil gagnvart ESB til að minnka uppreisn eigin þingmanna sem vilja endurskoða aðild Bretlands að ESB.
Danska ríkisstjórnin vonar að henni takist að halda svo vel á málum í forsetatíð sinni í ESB 1. janúar til 1. júlí 2012 að unnt verði að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu í Danmörku til að þurrka á brott fyrirvara vegna pólitískrar aðildar Dana að ESB. Engum dettur hins vegar í hug í Danmörku að efna þar til atkvæðagreiðslu um að Danir taki upp evru. Upptaka hennar þykir algjörlega fráleit. Frá Noregi berast fréttir um að aðeins 18,6% Norðmanna vilji aðild að ESB en rúmlega 70% á móti.
Þrátt fyrir öll þessi teikn frá næstu nágrönnum Íslands um neikvæða afstöðu þeirra til ESB og þrátt fyrir að allt sé í uppnámi innan ESB stendur forsætisráðherra Íslands fyrir framan flokksmenn sína og fagnar því að vinstri-grænir hafi stutt hana og Samfylkinguna til að koma Íslandi að aðildarbrautina inn í ESB og það verði að ljúka viðræðum um það við ESB fyrir apríl 2013.
Ræður Jóhönnu um þetta mál minna á atvikið þegar Leonid Brezhnev, þáverandi forseti Sovétríkjanna, las sama blaðið tvisvar í ræðu sinni af því að ritararnir höfðu gleymt að fjarlægja afritið áður en þeir afhentu forsetanum ræðuna til upplestrar.
Þegar Brezhnev varð á í ræðuflutningnum sáu allir að hann fylgdist ekki lengur með heldur gerði það sem honum var sagt. Hið sama á við þegar þeir sem standa utan innsta kjarna ESB-valdsins líta á aðildarviðræður Íslands á líðandi stundu og heyra tal um að samningskaflar hafi verið opnaðir og ljúka verði viðræðunum fyrir apríl 2013 þeim verður ljóst að annað ræður ferð en mat á raunverulegum aðstæðum.
Spyrja má: Hvort er betra að liggja undir ásökunum ESB-fræðings á Bifröst um að kunna ekki að ræða við ESB eða ræða við ESB og átta sig ekki á því sem er að gerast innan þess? Ríkisstjórn Íslands kallar yfir sig vantraust allra kunnáttumanna í ESB-málum með því að láta eins og ekkert sé sjálfsagðara en ræða nú um aðild að ESB og þykjast vita inn í hvaða ESB maður sé að leiða þjóð sína.