12.10.2011

Miðvikudagur 12. 11. 10

Ég hef ekki tölu á því hve margar ferðir ég hef farið til Brussel undanfarin 45 ár, borgin hefur breyst í áranna rás eins og eðlilegt er en þó er unnt að ganga að sporvögnum vísum á sama stað og áður og með sama númer og þeir hafa borið allt frá upphafi. Breytingar á borginni hafa orðið einna mestar í ESB-hverfinu svonefnda þar sem ráðherraráð, framkvæmdastjórn og þing ESB hefur aðsetur. Mestar eru byggingar þingsins enda þingmenn nálægt 800, hið undarlega er að þetta er einskonar hjáleiga þingsins því að enn er Strassborg talin heimaborg þess.

Ég les á ruv.is 12. október um að Guido Westerwelle, sem þykir misheppnaður utanríkisráðherra Þýskalands og áhrifalaus heima fyrir og annars staðar, hafi lagt áherslu á mikilvægi aðildar Íslands að ESB. Á ruv.is er sagt frá samtali fréttamanns við Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra Íslands. Þar segir:

„Aðspurður hvort ekki sé skrítið eða jafnvel tilgangslítið að sækja um aðild að ESB þegar ljóst sé að sambandið verði öðruvísi eftir 2-3 ár, sagði Össur að Evrópusambandið væri stöðugt að taka breytingum. Menn hafi gengið að því.

Össur segir öllum ljóst að gera þurfi breytingar á sambandinu, á vissan hátt sé einmitt gott að aðildarríkin gangi nú í gegnum hremmingar sem muni leiða til þessara breytinga, sem hann telur víst að liggi fyrir áður en Íslendingar greiða atkvæði um hugsanlega aðild. Landslagið sem sé reitt fram sem framtíðar landslag fyrir Íslendinga verði miklu skýrara. Það verði auðveldara að taka afstöðu.“

Þessi afstaða Össurar er í samræmi við orð hans í Brussel sumarið 2010 þegar hann sagðist hafa viljað fyrir 10 árum að Ísland gengi í ESB. Að hafa svo einlægan vin ESB sem utanríkisráðherra Íslands þegar lífshagsmunir þjóðarinnar liggja undir í viðræðum við sambandið sem krefst yfirráða á Íslandsmiðum og að geta stjórnað íslenskum landbúnaði hlýtur að gleðja embættismennina í Brussel. Það fór einnig vel á með þeim Össuri og Westerwelle í Frankfurt.

Hvað á Össur annars við að öllum sé ljóst að gera þurfi breytingar á ESB? Skyldu þeir sem stjórna ESB-löndunum taka undir að „hremmingar“ þjóða þeirra séu góðar af því að ESB hagnist á þeim? Sagði ekki Össur eftir að Lissabon-sáttmálinn kom til sögunnar 1. desember 2009 að framtíðin væri blúndulögð innan ESB og þess vegna fínt að slást í hópinn?