20.10.2011

Fimmtudagur 20. 10. 11

Eins og kunnugt er hafa Evrópusamtökin sem berjast fyrir aðild Íslands að ESB að mottói að rætt skuli um ESB-málefni á faglegan og upplýstan hátt með sannleikann að leiðarljósi. Hinn 20. október les ég á vefsíðu þeirra:

„DV birti í gær Sandkorn þess efnis að Björn Bjarnason, fyrrum dómsmálaráðherra og einn helsti andstæðingur ESB, væri staddur í Brussel til að kynna sér málin. 

Í frétt DV segir: " Björn er jafnframt í framlínu Heimssýnar þar sem hann berst gegn Evrópu. Undanfarna daga hefur hann verið í Brussel til að skoða og skilgreina."

Að sögn DV segja gárungarnir að Björn sé á styrk frá ESB til að, eins og segir í fréttinni, ...grafa undan aðildinni."

Því má svo bæta við að vefsíða sem Björn heldur úti ásamt Styrmi Gunnarssyni, fyrrum ritstjóra Morgunblaðsins, fékk fyrir skömmu styrk frá ESB!

Í herbúðum Björns og Styrmis hefur orðið "mútufé" gjarnan verið notað um ESB-fjármagn!

Heitir þetta ekki að kasta steinum úr glerhúsi á ástkæra ylhýra?“

Hið sérkennilega við þennan texta er að ekkert í honum r rétt. Ég er ekki í framlínu Heimssýnar, sit þar hvorki í stjórn né get talist virkur félagsmaður ef ég er á annað borð í félaginu. Ég hef stundum talað á fundum félagsins sé ég beðinn um það eins og ég kem í Rotary-klúbba eða á annan vettvang til að ræða ESB-mál sé um það beðið.

Þá er alrangt að ég dveljist hér í Brussel fyrir styrk frá ESB. Evrópuvaktin fékk styrk frá alþingi. Það er dæmalaust hve ESB-aðildarsinnar og eineltismennirnir á  DV leggja sig fram um að gera lítið úr alþingi vegna þessa styrks.

Hvers vegna er Evrópusamtökunum svona mikið í mun að klína því á okkur Styrmi Gunnarsson að Evrópuvaktin hafi fengið styrk frá ESB? Til að réttlæta þann stuðning sem Evrópusamtökin fá þaðan?

Þessi lygaáróður Evrópusamtakanna í skjóli DV um þennan styrk til Evrópuvaktarinnar sýnir hve lélegan málstað samtökin hafa, eitt er víst að þeim er ekki í mun að hafa það sem sannara reynist. Ef ég man rétt er þetta í annað sinn sem þau flytja þessi ósannindi.

Er það Andrés Pétursson, formaður Evrópusamtakanna, sem er ábyrgur fyrir þessum ósannindum? Ég skora á ósannindamanninn að gefa sig fram!