10.10.2011

Mánudagur 10. 10. 11

Víkurfréttir á Suðurnesjum birtu viðtal við Oddnýju G. Harðardóttur sem nýlega var kjörin formaður þingflokks Samfylkingarinnar og var áður formaður fjárlaganefndar alþingis.  Hún ræðir meðal annars skólamál og segir:

„Ríkið verður líka að horfa til allra einkaskóla í landinu og gera það upp við sig hvað eigi að kaupa af þessum einkafyrirtækjum, hvað er það sem að við erum ekki að fá í ríkisreknu skólunum? Hvað er það sem réttlætir að einkaskólar sem reknir eru fyrir ríkisfé rukki nemendur svo um hátt skólagjald? Ég get alveg sagt fyrir mitt leyti að ég er ekki hrifin af því að ríkið sjái meira og minna um rekstur einkaskóla og síðan komi eigendur skólanna og rukki nemendur um hundruð þúsunda á önn aukreitis, og það er ríkið sem lánar fyrir skólagjöldunum. Við þurfum aðeins að staldra við þetta. Ég er ekki að tala um að banna einkaskóla, alls ekki, en mér finnst það mjög skrítinn kapítalismi að setja upp einkaskóla og ná svo í peninga til ríkisins. Við þurfum að kanna hver þörfin sé og hvað það er sem ríkið á að leggja pening í. Mér þætti skynsamlegt að ríkið léti skólana fá fé með því skilyrði að þeir rukkuðu ekki nemendur um skólagjöld.“

Þessi orð sýna að Oddný hefur ekki hugmynd um rökin á bakvið rétt einkaaðila til að reka skóla og selja þjónustu sína ríki eða sveitarfélögum. Rökin eru einföld: ríkið greiðir ákveðna fjárhæð til hvers nemanda í landinu, hann ræður því hvernig hann notar þetta fé. Innheimti skólinn sem nemandinn ákveður að sækja sérstök gjöld af þeim sem innrita sig í hann greiðir nemandinn þau.

Í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar hefur markvisst verið grafið undan einkareknum skólum og þeir gerðir tortryggilegir á ýmsan hátt og oft ranglega eins og Oddný gerir í hinum tilvitnuðu orðum. Oddný hefði gott af því að lesa grein eftir Guðmund Edgarsson málmenntafræðing um einkaframtak á framhaldsskólastigi í nýjasta hefti Þjóðmála.