27.10.2011

ESB-aðildarviðræður á röngu róli

Brussel VI



Morgunblaðið minnir á það í leiðara 27. október að Ŝtefan Füle, stækkunarstjóri ESB, hafi áréttað í heimsókn sinni til Íslands 18. og 19. október „að ekki væri ætlast til að ríki sæktu um aðild að sambandinu nema skýr vilji væri til inngöngu. Viðræðurnar við sambandið þyrftu að fara fram á þeim forsendum“.

Þessi orð stækkunarstjórans koma heim og saman við það sem ég hef kynnst hér í Brussel dagana sem ég hef dvalist hér til að átta mig á stöðu Íslands gagnvart Evrópusambandinu þegar rúm tvö ár eru liðin frá því að alþingi samþykkti aðildarumsóknina 16. júlí 2009. Þá talaði Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra um hraðferð Íslands inn í ESB. Engan tíma mætti missa, lífið lægi við að taka upp evruna. Bar hann Carl Bildt, utanríkisráðherra Svía, fyrir því að hlutirnir myndu ganga hratt fyrir sig og einnig Olla Rehn, forvera Füles í embætti stækkunarstjóra.

Mál hafa þróast á allt annan veg varðandi tímasetningar en látið var í veðri vaka sumarið 2009. Þegar Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra segði á landsfundi Samfylkingarinnar um síðustu helgi að niðurstaða mundi liggja fyrir í ESB-viðræðunum fyrir kosningar í apríl 2013 hafði hún ekkert annað en eigin óskhyggju að leiðarljósi í því efni.

Í stuttu máli: sé farið yfir yfirlýsingar forráðamanna Samfylkingarinnar um tímasetningar í viðræðunum við ESB kemur í ljós að þær eru allar til heimabrúks og eiga ekki við nein rök að styðjast. Að Danir ætli að vinna að því hörðum höndum að opna alla viðræðukafla við Íslendinga á meðan þeir fara með pólitíska forystu innan ESB 1. janúar til 1. júlí 2012 endurómar þessa óskhyggju. Þeir hafa ekki gefið nein fyrirheit í þá veru.

Áhersla Össurar á ákveðin tímamörk í viðræðunum við ESB mælist nú orðið illa fyrir í Brussel. Íslendingum sé nær, segja menn, að búa þannig um hnúta að unnt sé að haga viðræðunum að kröfum ESB.

Af hálfu ESB er enginn skilningur á því að eitthvert ríki sæki um aðild að sambandinu án þess að hafa kynnt sér skilmála um framgöngu á umsóknarferlinu. ESB telur einfaldlega ekki unnt að hrófla við þessum skilmálum þótt fulltrúar þess hafi teygt sig til móts við Össur og félaga með orðaleikjum um aðlögun annars vegar og „tímasetta áætlun“ hins vegar.

Hjá ESB hafa menn vonað að þessi orðaleikur dygði til að aðlögun hæfist. Að nokkru leyti hefur það gerst. Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur þó ekki bitið nægilega fast á agnið að mati sambandsins. Um framhaldið verður meðal annars deilt á flokksþingi vinstri-grænna á Akureyri um næstu helgi.

Í fyrrgreindum leiðara Morgunblaðsins frá því 27. október segir:

„Í sérstökum bæklingi sem Evrópusambandið hefur gefið út til að útskýra stækkunarferlið er kafli sem heitir Aðlögunarviðræður. Kaflinn hefst á þessum orðum: “Fyrst er mikilvægt að undirstrika að hugtakið „samningaviðræður“ getur verið villandi. Aðlögunarviðræður beinast að skilyrðum og tímasetningum á inngöngu umsóknarríkis, framkvæmd og beitingu ESB-reglna, sem eru upp á 90.000 blaðsíður. Og þessar reglur (líka þekktar sem „acquis“, sem er franska yfir „það sem hefur verið ákveðið“) eru ekki umsemjanlegar. Fyrir umsóknarríki er þetta í grundvallaratriðum spurning um að samþykkja hvernig og hvenær eigi að framkvæma og beita reglum ESB og starfsháttum. Fyrir ESB er mikilvægt að fá tryggingu fyrir dagsetningu og skilvirkni innleiðingar umsóknarríkis á reglunum.““

Því ber að fagna að blaðið birtir þessi skýru fyrirmæli af hálfu ESB í leiðara sínum. Allir sem kynna sér aðildarferli ESB vita um þessi skilyrði sambandsins og að undan þeim verður ekki vikist.

Í greinum mínum frá Brussel hefur mér orðið tíðrætt um skort á heimavinnu vegna aðildarumsóknarinnar. Hafi ríkisstjórn Íslands ekki verið það ljóst sem birtist í leiðara Morgunblaðsins 27. október 2011 þegar hún vann að umsókninni um aðild að ESB vorið og sumarið 2009 tók hún ákvarðanir sínar um aðild án aðlögunar á fölskum forsendum. Hafi ríkisstjórninni verið þetta ljóst hefur hún vísvitandi reynt að blekkja íslensku þjóðina frá fyrsta degi aðildarferlisins og notið til þess stuðnings meirihluta utanríkismálanefndar alþingis sem segist hafa sett viðræðunefnd Íslands umboðið.

Leiðara Morgunblaðsins 27. október lýkur á þessum orðum:

„Auðvitað geta þeir sem það vilja haldið áfram, þrátt fyrir þessar skýru línur Evrópusambandsins, að tala um að Ísland eigi í samningaviðræðum við Evrópusambandið sem geti skilað einhverju öðru en inngöngu í Evrópusambandið eins og það er. Og þó að Evrópusambandið segi að reglurnar séu “ekki umsemjanlegar„ geta þeir sem vilja líka haldið áfram að reyna að blekkja landsmenn til að halda að við getum breytt Evrópusambandinu áður en við göngum inn. Slíkur málflutningur er ekki heiðarlegur, en reynslan sýnir að ákafir stuðningsmenn aðildar láta það ekki endilega stöðva sig.“

Þarna notar blaðið orðin „ ekki heiðarlegur“ þegar lýst er blekkingartali ESB-aðildarsinna um eðli viðræðnanna. Þar er of vægt til orða tekið því að um blekkingar er að ræða, vísvitandi eða af vanþekkingu, og þeim er haldið áfram af íslenskum stjórnvöldum.

Hér hef ég bent á tvennt sem lýtur að formhlið ESB-viðræðnanna: Í fyrsta lagi flytja íslenskir ráðamenn rangan boðskap þegar þeir ræða um tímasetningar varðandi ESB-viðræðurnar. Í öðru lagi neita þeir, að öllum líkindum vísvitandi annars af dæmalausri vanþekkingu, að viðurkenna hið rétta eðli aðlögunarviðræðnanna.

Blekkingariðjunni verður ekki haldið áfram nema ESB eigi aðild að henni. Skyldi Ŝtefan Füle hafa lýst áhyggjum yfir þátttöku sinni í þessari iðju þegar hann hitti íslenska ráðamenn? ESB hefur lagt fram stórfé til að stuðla að málefnalegri og gagnsærri umræðu um sjálft sig á Íslandi. Þeim fjármunum er kastað á glæ ef sambandið ætlar að halda áfram leikaraskapnum með ríkisstjórn Íslands um eðli samskipta Íslands og ESB.

Hér hefur ekki verið minnst á efnislega þætti viðræðnanna. Ég tel í stuttu máli álíka mikið að marka ummæli íslenskra ráðamanna um að unnt verði að ná viðunandi efnislegri niðurstöðu í virðræðunum og ummæli þeirra um tímasetningar og eðli viðræðnanna. Vegna blekkingarleiksins hafa viðræðumenn Íslands mun veikari stöðu gagnvart ESB en ella væri. Íslendingar eru einfaldlega að ræða við ESB í skjóli velvilja fulltrúa þess til að túlka mál á allt annan veg en opinber gögn ESB leyfa. Eru miklar líkur til þess að viðræðumenn í þeirri stöðu hafi fótfestu þegar kemur að raunverulegum efnislegum ágreiningi?

Dvölin hér í Brussel hefur staðfest þá skoðun að íslensk stjórnvöld eru á röngu róli í viðræðunum við Evrópusambandið. Það er báðum aðilum fyrir bestu að líta í eigin barm, hugsa ráð sitt og meta hvernig haga beri framhaldinu.