Fimmtudagur 27. 10. 11
Í dag skrifaði ég síðasta pistil minn frá Brussel að þessu sinni. Þeir sem lesa hann sjá að ég hef ekki sannfærst um það af dvöl minni hér að skynsamlegt sé fyrir okkur Íslendinga að halda áfram þessari för inn í Evrópusambandið. Við þurfum að endurmeta stöðuna og nýta okkur betur þau tækifæri sem bjóðast.
Gleðilegt er að sjá að lögreglunni hefur tekist að upplýsa úra-þjófnaðinn mikla. Það sýnir hve vel og skipulega hún vinnur að málum með árangur að leiðarljósi. Þá er einnig gleðilegt að lögreglan nýtur áfram mesta trausts stofnana á Íslandi þrátt fyrir aðförina sem að henni var gerð á dögunum með þátttöku þingmanna. Virðing alþingis er áfram í lágmarki.
Ég sé að nú er enn á ný tekið til við að kenna Schengen-aðild Íslands um að alþjóðlegir glæpamenn reyni að koma ár sinni fyrir borð. Að sjálfsögðu er alþjóðleg glæpastarfsemi ekki aðild að Schengen að kenna, þvert á móti auðveldar aðildin að Schengen lögreglu allt alþjóðlegt samstarf á tímum alþjóðlegrar glæpastarfsemi. Með aðildinni að EES gerðumst við aðilar að frjálsri för fólks yfir landamæri sem auðveldar okkur að setjast að utan Íslands og útlendingum að koma til Íslands og taka sér gott og illt fyrir hendur.
Nýja varðskipið Þór er komið til landsins. Ástæða er til að fagna því. Skipið gerir Íslendingum kleift að hafa forystu við að tryggja öryggi sjófarenda á Norður-Atlantshafi og sinna björgunarstörfum með fullkomnasta búnaði.