9.10.2011
Sunnudagur 09. 10. 11.
Í raun er furðulegt að fylgjast með því að í hvert sinn sem leiðtogafundur ESB-ríkjanna er fyrir dyrum koma þau Angela Merkel og Nicolas Sarkozy saman 10 dögum eða svo fyrir fundinn til að ákveða hvað eigi að gerast á honum, í aðdraganda hans eða eftir hann. Síðan eru fréttir dögum, vikum og jafnvel mánuðum saman um hvernig ríkisstjórnum annarra ESB-landa gengur að hrinda ákvörðunum þeirra í framkvæmd. Slóvakar hafa til dæmis ekki enn samþykkt á þingi sínu ákvarðanir evru-leiðtogafundarins 21. júlí sl.
Í dag hittust þau Merkel og Sarkozy í Berlín til að ákveða hvað þau vilja að gerist á leiðtogafundi ESB 17. og 18. október. Þau hafa ákveðið að breyta verði starfsháttum innan ESB, að minnsta kosti á evru-svæðinu. Þeim finnst óþægilegt að ríki eins og Slóvakía eða Finnland geti tafið fyrir því sem þau ákveða. Framvegis fá ríki ekki að njóta evrunnar nema þau lúti skilyrðislaust einni stjórn í efnahags- og ríkisfjármálum.