Þriðjudagur 18. 10. 11
Haustrigning setti svip á Brussel í morgun. Umferðin varð hæg og það tók strætisvagn minn um 15 mínútum lengur að komast á leiðarenda en þegar ég tók hann daginn áður. Ég er heppinn því að það gengur vagn úr hverfinu þar sem við búum alveg að dyrum ESB-þinghússins. Enginn fær að hitta þingmann án skráningar og þess að einhver frá viðkomandi þingmanni komi að sækja gestinn. Myndast stundum biðraðir við skráningarborðið þannig að öruggara er að hafa tímann fyrir sér.
Í kvöld fórum við í tónlistarhöll þeirra Brusselbúa og hlýddum að Penderecki, pólska tónskáldið, stjórna Sinfóníuhljómsveit Varsjá flytja eigin fiðlukonsert og 7. sinfóníu Beethovens.
Ég sé í fréttum að Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra hefur lokið athugun á ásökunum ríkisendurskoðunar á hendur embætti ríkislögreglustjóra og komist að þeirri niðurstöðu að embættið hafi ekki gerst brotlegt. Ríkisendurskoðandi lét hins vegar fréttamann draga út úr sé að embættið hefði framið lögbrot. Ég lýsti undrun minni á þeirri fljótfærni ríkisendurskoðanda og taldi hann raunar hafa brotið lög með ummælum sínum. Ætluðu líka ekki einhverjir þingmenn að kalla ríkislögreglustjóra á teppið til sín vegna þessa?
Skyldu fjölmiðlamenn gera harða hríð að embætti ríkisendurskoðanda eftir að niðurstaða innanríkisráðuneytisins hefur verið kynnt? Ég dreg það í efa. Í Baugsmálinu töldu fjölmiðlamenn og sumir stjórnmálamenn sig hafa veiðileyfi á embætti ríkislögreglustjóra og eimir greinilega eftir af því. Skyldi forsætisnefnd þingsins kalla ríkisendurskoðanda fyrir sig í tilefni af þessu máli?
Enn er einn angi Baugsmálsins til meðferðar fyrir dómstólum, skattamálið. Í bók minni Rosabaugur yfir Íslandi tek ég sérstaklega fram að ég fjalli ekki um þetta skattamál, engu að síður fjargviðrast Jóhann Hauksson yfir því í nýrri bók sinni sem á að snúast spillingu á Íslandi að ég ræði ekki einn anga málsins. Leitast hann við að gera það tortryggilegt og gengur þar erinda Baugsmanna.
Óvandaðir fjölmiðlamenn eru meinsemd í íslensku samfélagi. Þeir hika ekki við að leggja einstaklinga og embætti í einelti. Aðförin að Páli Magnússyni af hálfu fréttastofu er nýlegt dæmi svo og rógurinn um embætti ríkislögreglustjóra.