Þýskir fræðimenn: Fundum engin rök sem mæla með ESB-umsókn Íslands
Berlín I
„Við ræddum í okkar hóp um aðildarumsókn Íslands áður en við hittum þig hér í dag og veltum fyrir okkur spurningunni: Hvað hefur Ísland að sækja til ESB? Við stöldruðum að lokum aðeins við efnahagsmál og komumst síðan að sameiginlegri niðurstöðu: Ísland hefur engan efnahagslegan hag af því að ganga í Evrópusambandið. Þess vegna mælir ekkert með því að Ísland gerist aðili að ESB,“ var boðskapur hópur fræðimanna í Berlín á fyrsta fundi mínum hér í höfuðborg Þýskalands í dag hjá SWP, Stiftung Wissenschaft und Politik.
Í vikunni mun ég hitta þýska stjórnmálamenn, embættismenn og fésýslumenn til að kynna mér afstöðu þeirra til Evrópusambandsins og aðildarumsóknar Íslands. Aðild að Evrópusambandinu er hluti af sjálfstæði og endurreisn Þýskalands eftir síðari heimsstyrjöldina. Í þýskum stjórnmálum hafa flokkar keppst við að sýna sem mesta hollustu við Evrópusambandið. Hin síðari misseri hefur tónninn að vísu breyst og efasemdaraddir heyrast vegna byrðanna sem Þjóðverjar verða að axla vegna skuldavanda evrunnar.
Af samtölum mínum í dag dreg ég þá ályktun að þýsk stjórnvöld telji sig hafa náð undirtökunum í evru-umræðunum, þau hafi beint lausn skuldavandans inn á hina „þýsku leið“ við stjórn efnahagsmála, það er að halda verðbólgu í skefjum og sýna aðgæslu við stjórn ríkisfjármála. Frakkar taki meira að segja undir með þeim þótt Nicolas Sarkozy Frakklandsforseti vilji ekki að Angelu Merkel Þýskalandskanslara sé þakkað allt sem áunnist hefur.
Um leið Merkel hefur tekist að ná sínu fram innan evru-svæðisins vill hún styrkja stöðu sína heima fyrir þar sem flokkur hennar, Kristilegi demókrataflokkurinn (CDU) hefur átt undir högg að sækja í kosningum til sambandslandsþinga. Nýjasta útspil Merkel á heimavelli er að leggja til að lágamarkslaun í Þýskalandi. Í þessu efni tekur hún upp baráttumál jafnaðarmanna í stjórnarandstöðu enda segir hið borgaralega blað Die Welt í stórfyrirsögn á forsíðu 31. október: „Pläne für Mindestlohn: Opposition triumphiert“ – áætlanir um lágmarkslaun: stjórnarandstaðan sigrar.
Í Die Welt telja menn að eftir að Merkel hefur horfið frá nýtingu kjarnorku til raforkuframleiðslu, lýst stuðningi við kynjakvóta í þágu kvenna og afnumið herskyldu og velti nú fyrir sér að ákveða lágmarkslaun kunni hún að ganga of langt gegn skoðunum fastra kjósenda CDU. Ætli hún með þessu að ná vindi úr seglum stjórnarandstöðu jafnaðarmanna fyrir þingkosningarnar 2013 taki hún jafnfram verulega áhættu fyrir flokk sinn. Nái hún ekki að halda völdum eftir kosningarnar sé hún ekki aðeins án þeirra heldur hafi flokkurinn einnig tapað sérstöðu sinni.
Meðal forystumanna frjálsra demókrata (FDP), samstarfsflokks kristilegra í stjórn Merkel, hefur verið ágreiningur um hvaða leið skuli farin til að styrkja ESB-samstarfið að baki evrunni. Innan flokksins, sem hefur goldið afhroð í hverjum sambandslandskosningum eftir aðrar, hefur gætt vaxandi vantrúar á nauðsyn þess að Þjóðverjar taki að sér að greiða óreiðuskuldir Grikkja og annarra skuldugra evru ríkja.
Guido Westerwelle, utanríkisráðherra Þýsklalands, fór mikinn í setningarræðu á bókamessunni í Frankfurt á dögunum til að sanna að FDP stæði að baki ESB og evrunni. Athygli vakti að hann sagði að þeir sem ekki vildu standa að því að breyta ESB-sáttmálum til að styrkja innviði ESB og evru-samstarfsins yrðu skyldir eftir úti í kuldanum. Litið var á þetta sem nokkur þáttaskil við endurskoðun á sáttmálum og stofnskrá ESB. Til þessa hafa öll ríki ESB komið að slíku starfi og síðan hefur ráðist hvort þau ættu aðild að hinum sameiginlegu ákvörðunum þegar á reyndi, eins og varðandi Schengen-samstarfið á sínum tíma og evru-samstarfið síðar.
Til skýringar á ræðu utanríkisráðherrans hefur verið á það bent síðan að hann hafi í henni „farið á flug“ það er út fyrir hinn skrifaða texta og þar með talað „óvarlega“. Í þessu ljósi má lesa grein sem birtist í Die Welt í dag, 31. október, sem þeir skrifa saman Philipp Rösler, formaður FDP og viðskiptamálaráðherra, og Guido Westerwelle, forveri Röslers sem formaður FDP.
Í greininni afmarka þeir við hvað FDP-forystumenn eiga þegar þeir ræða breytingar á sáttmálum ESB. Þeir segja að setja skuli reglur um nánara eftirlit með þeim sem virði ekki reglur um stjórn ríkisfjármála og peningamála. Þeir vilji hins vegar ekki koma á „miðstýrðri efnahagsstjórn“ á evru-svæðinu. Það eigi að breyta sáttmála ESB í „stöðugleikasáttmála II“. Refsa eigi sjálfkrafa þeim sem brjóti reglurnar til að draga úr líkum á pólitískri tækifærismennsku. Skynsamlegt kunni að vera að víkka umfang þess sem verði refsivert við stjórn ríkisfjármála og opinbera skuldasöfnun.
Össur Skarphéðinsson hitti Guido Westerwelle á bókamessunni í Frankfurt 11. október þegar þýski utanríkisráðherrann sagði meira en hann ætlaði sér eins og greinin í Die Welt 31. október sýnir. Utanríkisráðuneyti Íslands sendi frá sér tilkynningu 12. október um fund ráðherranna þar sem sagði:
„Ráðherra [Össur] þakkaði fyrir öflugan stuðning Þjóðverja í [ESB-aðildar]ferlinu hingað til og sagðist vonast til þess að allt helmingur þeirra samningskafla sem eftir væru yrðu opnaðir á þessu ári og hinn helmingurinn á fyrri helmingi næsta árs. Mikilvægt væri að komast sem fyrst í viðræður um sjávarútveg og landbúnað. Þá sagði utanríkisráðherra mikilvægt að vinna áfram vel í þeim kafla sem lýtur að málefnum evrunnar sem tengdist framtíðarfyrirkomulagi peningamála á Íslandi.“
Í tilkynningunni sagði að Westerwelle hefði lýst ánægju sinni með góðan gang í viðræðunum og ítrekað áframhaldandi afdráttarlausan stuðning Þýskalands við Ísland. „Sagði hann þýsk stjórnvöld áfram vera tilbúin til að veita góð ráð og aðstoð. Ráðherrarnir ræddu stöðu evrunnar með hliðsjón af skuldavanda ákveðinna evruríkja og sagði Westerwelle Evrópusambandið einbeitt í að komast í gegnum yfirstandandi vanda. Hann lýsti hugmyndum sínum um áframhaldandi þróun samvinnu í Evrópu. Þá ræddu ráðherrarnir rannsóknir og vísindasamstarf á norðurslóðum og hvernig efla megi samstarf ríkjanna í þeim málaflokki.“
Á ruv.is 12. október er sagt frá samtali fréttamanns við Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra Íslands. Þar segir:
„Aðspurður hvort ekki sé skrítið eða jafnvel tilgangslítið að sækja um aðild að ESB þegar ljóst sé að sambandið verði öðruvísi eftir 2-3 ár, sagði Össur að Evrópusambandið væri stöðugt að taka breytingum. Menn hafi gengið að því.
Össur segir öllum ljóst að gera þurfi breytingar á sambandinu, á vissan hátt sé einmitt gott að aðildarríkin gangi nú í gegnum hremmingar sem muni leiða til þessara breytinga, sem hann telur víst að liggi fyrir áður en Íslendingar greiða atkvæði um hugsanlega aðild. Landslagið sem sé reitt fram sem framtíðar landslag fyrir Íslendinga verði miklu skýrara. Það verði auðveldara að taka afstöðu.“
Þessi orð Össurar um að það sé „á vissan hátt gott að aðildarríki ESB gangi nú í gegnum hremmingar“ eru dæmalaus og sýna hve langt hann er reiðubúinn að ganga til að réttlæta framhald viðræðna við ESB við núverandi aðstæður.
Hvað sem líður vinsamlegum umræðum og Westerwelle á bókamessunni og gleði Össurar yfir hremmingum evru-ríkjanna er ljóst að fræðimenn í Berlín sem sérhæfa sig í málefnum ESB og stækkun þess auk þróunar mála á norðurslóðum finna engin haldbær rök fyrir því að Íslendingar sækist eftir aðild að ESB. Þeir hafa heldur aldrei heyrt um ríkisstjórn eða þjóð sem sækir um ESB-aðild án þess að keppa að því að komast inn í ESB. Engin dæmi eru um að ríkisstjórn sé þverklofin í afstöðu sinni til aðildar. Þá er með öllu óþekkt og óframkvæmanlegt að sækja um aðild og semja um hana án þess að ákveða á viðræðuferlinu að laga sig að kröfum ESB um aðlögun.
Öll eru þessi atriði og skilyrði svo augljós og auðskilin í augum þessara sérfróðu manna að þeir botna ekkert í því að um efni þeirra sé deilt í umsóknarlandinu Íslandi. Þeir segja einnig að samningatækni ESB sé að geyma erfiðustu og viðkvæmustu málin þar til á síðustu stundu. Þetta hafi til dæmis verið gert með landbúnaðarmálin í viðræðunum við Pólverja. Þau hafi ekki verið leyst fyrr en á elleftu stundu þegar allt annað var að baki. Þannig verði þetta einnig með Ísland verði viðræðunum haldið áfram. Munurinn sé hins vegar sá að pólska ríkisstjórnin hafi eindregið viljað aðild sem ekki sé unnt að segja um þá íslensku sem segist ekki ætla að gera upp hug sinn fyrr en að viðræðum loknum. Það sé í sjálfu sér enn eitt dæmið um hve sérkennilega íslenska ríkisstjórnin standi að málinu.