2.10.2011

Sunnudagur 02. 10. 11

Í Vikudegi, sjálfstæðum norðlenskum fjölmiðli, birtist frétt um það sunnudaginn 2. október að nú um mánaðamótin hafi starfsstöð í Amtsbókasafninu á Akureyri verið lokað, en þar fór fram skönnun á dagblöðum og tímaritum. Samningur var á milli safnsins og Landsbókasafns um starfsemina, en síðarnefnda safnið á tækin sem notuð voru.  Síðastliðin ár hafa þrír starfsmenn verið að störfum á stöðinni og var á tímabili unnið við verkefnið frá kl. 8 á morgnana til 20 á kvöldin. Um 30 þúsund blaðsíður voru myndaðar í hverjum mánuði að jafnaði.

Að þessari skönnun á dagblöðum og tímaritum sé hætt er til marks um að ógöngur í opinberum rekstri magnast stig af stigi. Mörgum þykir örugglega litlu skipta þótt dagblöð og tímarit séu ekki skönnuð. Hitt vil ég segja að það hefur gjörbreytt allri notkun minni á dagblöðum og tímaritum að geta nálgast þau skönnuð á vefsíðunni timarit.is, þar sem frábær leitarvél auðveldar manni að nálgast efni á svipstundu sem annars hefði kostað mikið umstang og tíma að skoða.

Ungir vinstri grænir héldu landsfund sinn á Suðureyri 1. og 2. október og beindu spjótum sínum að Ólafi Ragnari Grímssyni vegna ræðu sem hann flutti við setningu alþingis 1. október og gerð var að umtalsefni hér í gær.

Í ályktun ungra vinstri grænna segir:

„Skilningur forseta á niðurstöðum stjórnlagaráðs birtist fundinum sem alvarlegir einræðistilburðir, þar sem annar handhafi framkvæmdavalds nýtir sér óvissutíma í samfélagi og óskýr ákvæði í tillögu ráðsins til að vega að þingræðinu, sem hefur verið höfuðeinkenni íslenskrar stjórnskipunar frá stofnun lýðveldisins og sópa saman öllu framkvæmdavaldi í hendur forseta.

Þessi þróun í átt að aukinni miðstýringu ríkisvalds brýtur í bága við hugmyndir um aukið lýðræði sem er í hávegum haft hjá íslensku þjóðinni. Fundurinn veltir fyrir sér hvort forsetinn sé blindur á vilja þjóðarinnar eða hvort hann standist einfaldlega ekki mátið að auka eigin umsvif á óvissutímum.“

Þessi ályktun endurspeglar hina djúpstæðu óvild sem ríkir meðal ráðherra og stuðningsmanna þeirra í garð Ólafs Ragnars. Er með ólíkindum að æðstu menn þjóðarinnar og fylgismenn þeirra telji brýnasta mál liðandi stundar setja á deilur af þessu tagi.