22.10.2011

Laugardagur 22. 10. 11

Að ganga um Grand Place og hjarta Brussel í dag vakti ekki neina vitund um að í borginni byggju menn sig undir leiðtogafund ESB í kvöld og á morgun. Nokkrum sinnum heyrðist ð vísu í þyrlu eða þyrlum yfir borginni og stundum sáust nokkrir svartir bílar á hraðferð með sírenur og blá ljós. Þetta hafði engin áhrif á mannfjöldann í miðborginni sem spókaði sig í sólinni. Brussel-búar fara greinilega með börn sín í miðborgarferð um helgar og gefa þeim ís, vöfflur eða jafnvel franskar kartöflur með mæjonesi.

ESB-hverfið þar sem leiðtogarnir hittast, framkvæmdastjórn ESB situr og ESB-þingmennirnir hafa skrifstofur er skammt utan við gömlu Brussel-miðborgina. Þar mátti í gær sjá skilti á strætisvagnastöðvum þar kynnt var að vagnarnir myndu ekki stöðva þar sunnudaginn 23. október vegna leiðtogafundar ESB. Þá höfðu gaddavírs-hindranir verið fluttar í hliðargötur auk þess sem járngrindum var víða staflað. Benti þetta til þess að lögregla byggi sig undir að halda mótmælendum í hæfilegri fjarlægð frá fundarstað leiðtoganna. Húsið er hins vegar hannað á þann veg að leiðtogarnir fara inn um bakdyr þess og er auðvelt að halda öllum aðkomuleiðum þangað opnum hvað sem líður því sem er að gerast á torginu framan við húsið.