11.4.2010

Sunnudagur, 11. 04. 10.

Mér sýnist græni liturinn að aukast í gróðrinum hér í Fljótshlíðinni með úrkomunni. Á leiðinni austur leit ég inn í Bókakaffið hjá Bjarna Harðar á Selfossi.  Hann er í framboði fyrir vinstri-græna til sveitarstjórnar. Aftraði það mér frá því að þiggja tesopa hjá honum. Hlusta á skemmtilegar sögur og árétta, að ekki dytti mér í hug að styðja vinstri-græna. Raunar skil ég ekki, hvernig Bjarni telur það samræmast ESB-aðildar andstöðu sinni að styðja þann flokk, sem gerði Samfylkingunni kleift að koma aðildarumsókninni til Brussel.

Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn hafa ákveðið framboð sín hér í Rangárþingi eystra. Ísólfur Gylfi Pálmason, ágætur félagi í þinginu á sínum tíma, er í efsta sæti á lista framsóknarmanna. Hann hefur verið sveitarstjóri að Flúðum. Elvar Eyvindsson, sveitarstjóri og bóndi, er í efsta sæti á lista sjálfstæðismanna, sem hafa myndað meirihluta með K-listanum, en hann býður ekki fram að þessu sinni. Elvar gefur ekki kost á sér sem sveitarstjóri að kosningum loknum. Sjálfstæðismenn hafa ákveðið, að fái þeir meirihluta, verði Kristín Þórðardóttir, lögfræðingur og fulltrúi sýslumanns, sveitarstjóri.

Ég sé, að Hans Magnússon, nágranni minn í Kirkjulækjarkoti, er í heiðurssæti á lista sjálfstæðismanna. Hann var á K-lista fyrir síðustu kosningar.