6.4.2010

Þriðjudagur, 06. 04. 10.

Sagt var frá því í Le Figaro  í morgun, að Rachida Dati, fyrrverandi dómsmálaráðherra Frakka og núverandi ESB-þingmaður, hefði verið svipt öryggisvörðum, bíl og bílstjóra samkvæmt beinum fyrirmælum Nicolas Sarkozys, Frakklandsforseta, þar sem hún lægi undir grun um að koma af stað orðrómi um, að hjónaband forsetans væri í molum. Dati hefur verið talin til nánasta hóps Sarkozys til þessa.

Jafnframt hefur verið greint frá því, að franska lögreglan hafi hafið rannsókn til að finna bloggarana, sem stóðu að baki orðrómnum. Blaðið Journal du Dimanche bað lögregluna að hlutast til um málið, því að á bloggsíðu þess fór þessi kvittur fyrst á kreik nú í mars. Hann barst um heim allan og á forsíður margra blaða en BBC segir í dag, að þetta hafi allt verið úr lausu lofti gripið.

Tveimur starfsmönnum við vefsíðu blaðsins hefur verið sagt upp störfum vegna hneykslisins. Annar þeirra segist hafa sett efnið á síðuna en hann sé ekki upphafsmaður sögunnar. Eigandi Journal du Dimanche er náinn vinur Sarkozys og fullyrða ýmsir, að forsetinn hafi hvatt til þess, að lögreglan yrði sett í málið.

Vinsældir Sarkozys hafa aldrei verið minni síðan hann varð forseti. Látið er í veðri vaka af stuðningsmönnum hans, að söguburðurinn um hjónaband hans sé aðeins einn liður í því að veikja forsetann enn frekar eða jafnvel franskan efnahag með tilstyrk alþjóðlegra fjármálastofnana.

Á meðan Frakklandsforseti á í þessu basli, búa breskir stjórnmálaforingjar sig undir fjögurra vikna snarpa baráttu fyrir þingkosningar þar 6. maí næstkomandi. Gordon Brown tikynnti kjördag í dag, þing situr til 12. apríl. Fréttir berast af því, að ekki verði tóm til að ræða Icesave-mál, fyrr en að kosningum loknum.

 

 

 

 

 

.