9.4.2010

Föstudagur, 09. 04. 10.

Hér má sjá viðtal mitt við Gísla Martein Baldursson, borgarfulltrúa, á ÍNN 7. apríl.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sagði í viðtali við The Financial Times Deutschland, sem sagt var frá í Fréttablaðinu í dag, að fresta eigi aðildarumsókn að ESB. Það sé enginn að mæla með henni við þjóðina. Þetta er stærsta mál Össurar Skarphéðinssonar, flokksbróður hennar og arftaka. Verri kveðju hefði hann varla getað fengið frá henni.

Ég er þeirrar skoðunar, að draga eigi ESB-umsóknina til baka. Hún er í senn ótímabær og illa undir búin. Um hana er engin samstaða í ríkisstjórninni og meirihluti landsmanna er á móti aðild.

Í Vef-Þjóðviljanum segir:

„Á blaðamannafundi í dag ræddi Jóhanna Sigurðardóttir um þessa frestunarhugmynd Ingibjargar Sólrúnar. Steingrímur J. Sigfússon var þar staddur og sá ástæðu til að fræða vitleysingana í kringum sig með eftirfarandi speki: „Það er náttúrlega ekki hægt að fresta því sem ekki er hafið“ og bætti því við að viðræður væru ekki enn hafnar. Og töldu fréttamenn sig þá ekki hafa meira að spyrja hann um.

Já, hvar væru landsmenn staddir ef ekki væri Steingrímur J. Sigfússon til að leiðbeina þeim? Það er auðvitað ekki hægt að fresta viðræðum við Evrópusambandið því þær eru ekki hafnar. Ef menn vilja fresta þeim þá verður að hefja þær strax svo ekki verði frekari bið á frestuninni.

Hver hefði trúað því, ef einhver hefði spáð að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir legði til að aðildarviðræðum við Evrópusambandið yrði frestað og þá myndi formaður Vinstrigrænna gefa svar eins og þetta? “