Miðvikudagur, 21. 04. 10.
Tók í dag upp þátt á ÍNN með Kristínu Þórðardóttur, staðgengli sýslumannsins á Hvolsvelli. Við ræddum um viðbrögð vegna gossins og væntanlegar sveitarstjórnarkosningar, en Kristín er á lista sjálfstæðismanna í Rangárþingi eystra.
Fór klukkan 20.00 á fund í félagsheimilinu Hvoli á Hvolsvelli. þar sem fulltrúar almannavarna og ýmissa ríkisstofnana auk sveitarstjóra ræddu við heimamenn í Rangárþingi um stöðu mála vegna gossins í Eyjafjallajökli.
Öllum er ljóst, hve mikil hætta getur verið á ferðum. Þótt stöðugt vatnsrennsli sé úr jöklinum, er ekki unnt að útiloka vatnsflóð að nýju og er vel fylgst með þeim þætti.
Askan veldur miklum vanda fyrir bændur undir Eyjafjöllum og er lögð mikil áhersla á að aðstoða þá á alla lund. Næstu daga er spáð vindátt úr austri, sem getur flutt ösku hingað vestur yfir. Vona menn, að ekki verði mikið öskugos.
Mikið lof var borið á framgöngu Kjartans Þorkelssonar, sýslumanns, og hans manna, Slysavarnafélagið Landsbjörgu, sem virkjað hefur félaga sína um land allt, almannavarnir undir forystu ríkislögreglustjóra, í stuttu máli alla, sem mest hefur mætt á vegna gossins.
Á dögunum birti ég bréf, sem ég ritaði að gefnu tilefni. Þar minnti ég á Baugsmálið og áróður blaðamanna á Baugsmiðlunum gegn embætti ríkislögreglustjóra og mér í því skyni að brjóta rannsókn málsins á bak aftur. Var sá áróður allur til þess fallinn að grafa undan trausti í garð eftirlitsstofnana. Nú er hins vegar skammast yfir því, jafnvel af sömu blaðamönnum, að þær hafi ekki staðið sig nægilega vel. Það kemur mér ekki á óvart, að Reynir Traustason, ritstjóri og eigandi DV, taki þessari gagnrýni minni illa. Hann tekur hana réttilega til sín.