26.4.2010

Mánudagur, 26. 04. 10.

Fræðimenn á öllum sviðum eru nú teknir til við að leggja út af skýrslu rannsóknarnefndar alþingis. Af því, sem ég hef lesið eða heyrt, sýnist mér þeir almennt þeirrar skoðunar, að skýrslan staðfesti einhverja fordóma, sem þeir höfðu um íslenskt þjóðfélag. Þeim komi því fátt á óvart í skýrslunni, þeir hafi vitað þetta flest eða allt áður. Nú gefist þeim nýtt tækifæri til að árétta fyrri skoðanir sínar og þeir séu fúsir til þess, því að nú séu kannski fleiri með eyrun opin en áður.

Líklegt er, að umræður á þessum nótum skili litlu. Við séum því dæmd til að spóla áfram í sama umræðufarinu, þrátt fyrir skýrsluna. Nokkrar spurningar vakna þó um, hvernig fræðimenn skilgreina hugtök, sem þeir nota.

á undanförnum árum hafa umsvif ríkis og opinberra aðila aukist mjög í landinu. Allar tölur benda eindregið til þess. Tekjur ríkisins jukust gífurlega eftir einkavæðingu bankanna og vegna umsvifa fjármálafyrirtækja. Þótt tekjurnar væru notaðar til að greiða niður skuldir ríkisins, rann stór hluti þeirra til aukinna ríkisumsvifa. Hvernig er unnt að kenna stjórnarstefnu af þessum toga við nýfrjálshyggju? Inntak þeirrar stefnu er, að ríkið haldi sér sem mest til hlés og dragi úr umsvifum sínum.

Eitthvað er bogið við þetta nýfrjálshyggjutal allt saman. Líklega af því að það byggist á fordómum en ekki á hrunskýrslunni. Einkavæðing banka er ekki til marks um nýfrjálshyggju. Bankar í einkaeign komu til sögunnar langt á undan nýfrjálshyggjunni. Í hrunskýrslunni er þess hins vegar getið, að í forsetatið Bills Clintons hafi hið afdrifaríka skref verið stigið, að rjúfa múra milli viðskiptabanka og fjárfestingabanka. Eftir þessu hafi verið hermt hér á landi með hroðalegum afleiðingum. Er Clinton kannski laumu-nýfrjálshyggjumaður?