25.4.2010

Sunnudagur, 26. 04. 10.

Nú er ár liðið frá þingkosningum og ég hef verið jafnlengi utan þings. Ég hef kunnað því vel og haft nóg fyrir stafni, raunar meira en ég hef getað sinnt. Satt best að segja fylgist ég ekki mikið með þingstörfum, enda eru þingfréttir að engu orðnar í fjölmiðlum. Mér skilst, að þingfréttaritari RÚV sitji oftast einn fjölmiðlamanna í þinginu.

Miðlun þingfrétta er vissulega auðveldari á annan hátt en áður var, þegar unnt er að horfa á sendingar frá þingfundum í sjónvarpi og nálgast þingskjöl á netinu. Stjórnmálaumræður byggjast hins vegar á því, að miðlað sé fréttum af álitaefnum til almennings og umræður um þau meðal hans leiði til skoðanaskipta utan þingsalarins eða þingnefnda.

Í því tómarúmi, sem myndast, þegar ekki er sagt frá því, sem stjórnvöld gera á annan hátt en með endurómi af fréttatilkynningum þeirra eða setningum, sem sagðar eru á hlaupum eða við borðsendann eftir ríkisstjórnarfundi, magnast aðeins leyndarhjúpurinn um viðfangsefni stjórnmálamanna. Hann er vissulega mikill um þessar mundir.

Hér skortir alla fjölmiðlaviðleitni til að setja þingmál í stórt samhengi og skýra áhrif þess, sem er á döfinni hjá stjórnvöldum. Þau ráða ekki heldur við stóru málin og virðast auk þess ekki hafa neitt jarðsamband eins og best sýndi sig, þegar samningum þeirra og stefnu í Icesave-málinu var hafnað á eftirminnilegan og afgerandi hátt. Hvað gerist næst? Ráðherrar lauma inn orðalagi í yfirlýsingu til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem sýnir, að þeir eru enn við sama heygarðshornið, þegar Icesave er annars vegar.