18.4.2010

Sunnudagur, 18. 04. 10.

Ég fékk aðfinnslur vegna pistils míns í gær frá einum lesenda minna. Mér þótti ástæða til að svara því á þennan hátt:

„Pistillinn snerist um fundinn, sem ég sat í gær og þau orð, sem þar féllu. Ég sé enga ástæðu til annars en tala vel um samstarfsfólk mitt og lýsa skoðun minni á því. Ég get ekki talað fyrir munn annarra.

Í þau ár, sem ég sat í embætti dómsmálaráðherra, var stöðugt ráðist á mig af hálfu Baugsmanna, lögfræðinga þeirra og Baugsmiðlanna fyrir að beita mér ekki fyrir því, að Baugsmálið yrði niðurfellt. Til þess voru árásirnar gerðar, þótt gjarnan væri farið í kringum þann kjarna málsins eins og köttur í kringum heitan graut. Jafnframt var ráðist að embætti ríkislögreglustjóra og býsnast yfir öllu eftirliti með þeim mönnum, sem þú telur nú fjárglæframenn. Ég er viss um, ef fleiri hefðu gengið í lið með okkur, sem börðumst gegn Baugsmiðlunum og áróðursmönnum Baugsmanna, hefði andrúmsloftið, þar sem fjárglæfrarnir þryfust, ekki myndast.

Þegar ég lít á þennan hlut minn í aðdraganda hrunsins, sé ég enga ástæðu til að biðjast afsökunar. Ég var ekki í liðinu, sem mærði útrásina. Þegar hrunið varð, lagði ég strax fyrir ríkisstjórn tillögur um, að búið yrði í haginn fyrir öfluga sakarannsókn með því að stofna embætti sérstaks saksóknara. 

Þótt ég sæti í ríkisstjórn, var stjórn efnahagsmála aldrei á mínum herðum. Málið er ekki flóknara en það og furðulegt að sjá tilraunir manna til að draga þá til ábyrgðar fyrir stjórn þeirra mála, sem báru hana ekki, hvorki sem ráðherrar né forystumenn stjórnmálaflokks. Hrunið á ekki upptök sín í þeirri stjórnmálastefnu, sem ég fylgi, heldur hrunadansi bankamanna og fjármálafursta, eins og hrunskýrslan segir.“

Að einhverju hefði breytt um framvindu mála, að ríkisstjórnin hefði verið fjölskipað stjórnvald en ekki hver ráðherra ábyrgur fyrir sínum málaflokki eins og nú er, stenst ekki skoðun að mínu mati. Ég hef kynnst innviðum stjórnarráðsins bæði sem embættismaður og ráðherra. Þeir eru traustir og ástæðulaust að vega að þeim á örlagatímum. Að  sjálfur forsætisráðherra skuli gera það sýnir aðeins, hve glórulaus landstjórnin er undir forystu Jóhönnu Sigurðardóttur.