10.4.2010

Laugardagur, 10. 04. 10.

Í dag ritaði ég pistil í tilefni af því, að rannsóknarskýrslan vegna hrunsins verður birt mánudaginn 12. apríl.

Í pistlinum færi ég rök fyrir því, að stjórnsýsla og stjórnmálamenn hafi búið sig undir skýrslu rannsóknarnefndarinnar á ýmsan hátt. Á hinn bóginn sé Jón Ásgeir Jóhannesson við sama heygarðshornið og áður. Hann láti eins og ekkert hafi breyst og sér nægi að skrifa opin bréf til að hafa sitt á hreinu.

Lech Kaczynski, forseti Pólland, eiginkona hans og um 100 manns fórust í flugslysi í morgun við rússnesku borgina Smolensk, en þar var vélin að lenda, og ætluðu farþegarnir að taka þátt í minningarathöfn um Katyn-morðin í síðari heimsstyrjöldinni. Þar myrtu Sovétmenn um 20.000 foringja í her Póllands. Hefur ódæðið hvílt sem mara á pólsku þjóðinni síðan.  Það hefur einnig leitt til spennu í samskiptum Rússa og Pólverja. Hún hefur hins vegar dvínað hin síðari ár og minningarathöfnin nú var með þátttöku Rússa.