Föstudagur, 30. 04. 10.
Í dag voru birtar niðurstöður skoðanakannana, sem sýndu, að fylgi Sjálfstæðisflokksins hefði minnkað verulega frá síðustu Gallup-könnun. Er enginn vafi á því, að birting hrunskýrslunnar hefur þar úrslitaáhrif. Í Reykjavík snarvex fylgi við Besta flokkinn undir forystu Jóns Gnarrs. Er hann nú jafnstór Sjálfstæðisflokknum í borginni, hvor flokkur fengi 4 borgarfulltrúa og Samfylkingin 5 fulltrúa.
Sjálfstæðisflokkurinn mælist stærsti flokkurinn á landsvísu. þrátt fyrir fylgistapið. Ég hafði efasemdir um réttmæti þess að birta hrunskýrsluna, aðeins nokkrum vikum fyrir sveitarstjórnakosningar. Umræður um hana mundu skyggja á álitamál í þeim kosningum, sem snúast að sjálfsögðu um, hverjir eiga að fara með stjórn sveitarstjórna. Frambjóðendur þar koma almennt ekki við sögu í hrunskýrslunni og enginn heldur því fram, að ákvarðanir sveitarstjórnamanna hafi leitt til bankahrunsins.
Skýrslan hefur eðlilega haft mikil áhrif á stjórnmálaviðhorfið. Úr þeirri stöðu verða flokkarnir að vinna og laga sig að henni með málflutningi sínum. Þar geta hins vegar rekist á hagsmunir á flokksvettvangi, þeirra, sem eru að sækjast eftir fylgi til starfa í sveitarstjórnum, og hinna, sem koma fram fyrir flokkana í heild, ef svo má að orði komast.