Mánudagur, 19. 04. 10.
Miðstjórn Sjálfstæðisflokksins kom saman í dag og samþykkti tillögu Bjarna Benediktssonar um að efna til auka-landsfundar. Tilefnið er, að Þorgerður Katrín sagði af sér varaformennsku. Á fundinum verður kjörin forysta flokksins og stefnir Bjarni að endurkjöri.
Á bloggsíðum má þegar sjá vangaveltur um, hvort einhver muni sækjast eftir formennskunni gegn Bjarna. Óvildarmenn Sjálfstæðisflokksins vilja að sjálfsögðu ýta undir sem mest átök innan hans.
Í því felst styrkur fyrir flokkinn og Bjarna að taka ákvörðun um landsfund og opna þannig spurninguna um alla flokksforystuna en ekki aðeins varaformennskuna, eins og gert hefði verið, ef ákveðinn hefði verið flokksráðsfundar til að velja arftaka Þorgerðar Katrínar.
Eins og ég sagði í pistli mínum um flokksráðsfundinn síðasliðinn laugardag, er það til marks um hugrekki hjá Þorgerði Katrínu að stíga skref hennar. Í því felst traust til Sjálfstæðisflokksins um, að hann sé fær um að leysa forystuvanda, takast á við áhrif hrunskýrslunnar og ganga í gegnum sveitarstjórnakosningar á sama tíma.
Enginn hinna stjórnmálaflokkanna kemst í hálfkvisti við Sjálfstæðisflokkinn í viðbröðgum hans við hrunskýrslunni.