22.4.2010

Fimmtudagur, 22. 04. 10.


Gleðilegt sumar!

Var austur í Fljótshlíð fram eftir degi. Eyjafjallajökull náði aldrei að hreinsa sig til fulls, svo að mökkurinn sást ekki frá gosinu. Nú er því spáð, að aska berist vestur fyrir jökulinn og þá líklega til okkar í hlíðinni. Við skulum vona, að öskufallið verði ekki mikið. Nágrannar mínir hafa hugað að viðbrögðum fyrir kýr, kindur og hesta. Þegar ég ók vestur fyrir Hvolsvöll blasti fjallahringurinn við undir heiðbláum himni. Þannig hefði þetta þurft að vera í austurátt að gosstöðinni.

Mér hefur verið hugsað til almannavarnafundarins á Hvolsvelli í gærkvöldi. Það var næsta óraunverulegt að sitja fund um framkvæmd viðbragðsáætlana, sem ég kynnti mér vel, þegar þær voru í smíðum á sínum tíma, án þess að mér dytti  í hug, að ég yrði þátttakandi í atburðunum sjálfum, þegar á áætlanirnar reyndi. Á fundinum kom fram, að allt gengi betur en ella vegna hins góða undirbúnings, sem Kjartan Þorkelsson, sýslumaður, átti frumkvæði að á sínum tíma.

Þetta er einnig í fyrsta sinn, sem reynir á framkvæmd nýrra almannavarnalaga. Var mér sagt, að þau stæðust einnig áraunina. Einhver taugaveiklun er þó innan stjórnarráðsins, því að á fundinum á Hvolsvelli voru fjórir ráðherrar.

Í dag var skýrt frá því, að Ólafur Ragnar hefði verið á fræðslufundi í samhæfingarmiðstöðinni í Skógarhlíð. Líklega hefur þar verið um almannavarnaaðgerð að ræða til að draga úr líkum á því, að hann hlypi á sig á sama hátt og á dögunum, þegar hann talaði eins og enn alvarlegra gos í Kötlu væri á næsta leiti.