15.4.2010

Fimmtudagur, 15. 04. 10.

Enn sést ekki til Eyjafjallajökuls héðan úr Fljótshlíðinni. Hann er umlukinn skýjahulu eða þoku. Engin aska hefur fallið hér, enda er vindáttin vestlæg. Er í raun næsta óraunverulegt að sitja hér að morgni dags og fylgjast með Sky News, sem flytur stöðugar fréttir af því, að allir flugvellir á Bretlandseyjum séu lokaðir eða að lokast vegna ösku frá gosinu í jöklinum. Stöðin hefur komið fréttamönnum fyrir á ýmsum flugvöllum, sem taka farþega og sérfræðinga tali.

Helsti fréttamaður stöðvarinnar er á Manchester-flugvelli. Hann segir um 10.30, að ekkert verði flogið fyrr en í fyrsta lagi á morgun. Adam Boulton, stjórnmálafréttaritari stöðvarinnar, segir, að fréttirnar minni sig á Harry Potter-sögu. Boulton er einnig í Manchester, af því að fyrsti sjónvarps-samstalsþáttur formanna þriggja stærstu bresku flokkanna  vegna þingkosninganna 6. maí verður þar í kvöld. Boulton segir, að flugbannið trufli ekki þáttinn, því að leiðtogarnir séu allir í nágrenni Manchester.

Ekkert sást til Eyjafjallajökuls í dag. Í sjónvarpsfréttum klukkan 19.00 heyrði ég um skyndirýmingu í Fljótshlíðinni af öllum bæjum að Deild og þaðan öllum bæjum fyrir neðan veg. Skyldi fólk fara til Hvolsvallar, af því að merki um nýja flóðbylgju hefði sést frá Fljótsdal í Gígjökli, hún væri stærri en hin fyrri og færi með 10 km hraða niður Markarfljót. Um klukkan 20.30 var flóðið að komast niður að nýju Markarfljótsbrunni og um 20.35 sagði Sveinn Guðmarsson, fréttamaður RÚV, að hann sæi krapa og hröngl í flóðinu. Vatnið kæmi ekki eins og flóðbylgja heldur hækkar jafnt og þétt í flóðinu, minnti sig á hafragraut! Klukkan 20.45 virtist flóðið ná hámarki við nýju Markarfljótsbrúna og hún standast það.

Þegar tilkynning um skyndirýmingu barst, sá ég bíla aka á veginum hér fyrir neðan út á Hvolsvöll og um 20.45 jókst umferð að nýju, eins og létt hefði verið á takmörkunum. Þær hafa verið mismunandi strangar í dag. Ég skrapp út á Hvolsvöll fyrir hádegi og tilkynnti mig hjá björgunarsveitarmanni við afleggjarann að Tumastöðum.

Augljóst er, að fréttirnar hafa þau áhrif á þá, sem fjarri eru Fljótshlíðinni, að bráð hætta steðji að okkur hér. Svo er ekki, en allur er varinn góður. Flóðbylgja getur vissulega valdið miklum skaða á því svæði, þar sem hún skellur. Askan er hins vegar mun skaðvænlegri og hefur þegar valdið svo miklu fjárhagstjóni í Evrópu og um heim allan, að ekki er unnt að slá á það tölu. Verður forvitnilegt að fylgjast með því, hvað talið verður nauðsynlegt að gera á heimsvísu til að bregðast við slíkum náttúruhamförum framvegis á þotuöld.