7.4.2010

Miðvikudagur, 07. 04. 10.

Í dag ræddi ég við Gísla Martein Baldursson, borgarfulltrúa, í þætti mínum á sjónvarpsstöðinni ÍNN.

Sveinn Arason, ríkisendurskoðandi, ritaði forseta Alþingis bréf, sem birt var í dag, þar sem hann mótmælir harðlega framkomu Álfheiðar Ingadóttur í garð Steingríms Ara Arasonar í máli því, sem ég lýsti í pistli mínum sl. mánudag. Segir hann „ólíðandi“ hvernig Álfheiður hafi gripið á málinu, að sjálfsögðu hafi embættismenn frelsi til að leita beint og milliliðalaust álits ríkisendurskoðanda á úrlausnarefnum sem þessu.

Álfheiður brást við á þann veg að segja ríkisendurskoðanda misskilja afstöðu sína. Hún hefði fundið að því, að Steingrímur Ari hefði ekki ráðgast við ráðuneytið vegna málsins. Þetta er einkennileg afstaða, þar sem fyrir liggur að efnt hafði verið til funda með ráðuneytinu af hálfu stofnunar Steingríms Ara.

Þungi í málflutningi ríkisendurskoðanda birtist skýrt í því, að hann ritar bréf sitt til forseta alþingis. Verður fróðlegt að fylgjast með því, hvernig Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir grípur á málinu. Hún hlýtur að svara bréfi ríkisendurskoðanda, sé hún ósammála mati hans á ámælisverðum vinnubrögðum Álfheiðar, þögn hennar jafngildir á hinn bóginn samþykki.