20.4.2010

Þriðjudagur, 20. 04. 10.

Datt inn á útsendingu frá alþingi, þar sem rætt var um frumvarp utanríkisráðherra til breytinga á lögum um varnarmálastofnun. Ég hef lesið skýrsluna, sem býr að baki frumvarpinu. Þar er þeirri skoðun hnekkt, sem haldið var fram í utanríkisráðherratíð Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, að óhjákvæmilegt væri að koma á fót varnarmálastofnun vegna kröfu frá NATO. Í skýrslunni segir skýrt, að NATO geri engar kröfur í þessu efni aðrar en þær, að gætt sé NATO-öryggis í starfi stofnananna.

Mér þótti einkennilegt eftir allt, sem Ingibjörg Sólrún sagði á sínum tíma og orðaleiki í greinargerð með frumvarpi hennar í kringum hugtakið „varnartengd verkefni“, að heyra Össur Skarphéðinsson segja í ræðustól þingsins, að varnarmálastofnun skilgreindi sjálfa sig sem hernaðarstofnun. Þegar Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, gerði athugasemd við þessi orð Össurar, dró hann í land og sagði suma starfsmenn varnarmálastofnunar tala á þann veg, að tilgangur starfs þeirra væri hernaðarlegur.

Varnarmálastofnun er borgaraleg stofnun, enda hefur alþingi ekki samþykkt nein lög um íslenska hernaðarstarfsemi. Þess vegna á að laga starfsemi stofnunarinnar að öðrum borgaralegum stofnunum í landinu. Utanríkisráðuneytið vildi hins vegar halda í verkefni við brottför varnarliðsins og þess vegna var varnarmálastofnun komið á fót.  Í því efni var litið til baka en ekki fram á veg. Ákvörðun um stofnunina hafði ekkert með hættumat eða hernaðarlega ógn að gera. Hún byggðist alfarið á tregðu utanríkisráðuneytisins til að missa spón úr aski sínum. 

Hið einkennilega við tillögur utanríkisráðherra er að tengja brotthvarf varnarmálastofnunar við nýtt innanríkisráðuneyti. Engin þörf er á því. Líta má á þessa tengingu sem leikfléttu til að flækja og tefja þessar umbætur. Er það í ætt við annað, sem þessi ríkisstjórn gerir. Sé skýr og einföld leið að markmiði, hafnar ríkisstjórnin henni og festist í eigin flækjufæti.

Hvort hernaðarógn steðjar að Íslandi eða ekki, breytir engu um nauðsyn þess, að hér séu traustir innviðir í þágu öryggis þjóðarinnar traustir sveigjanleiki í tækjabúnaði og innan stjórnkerfisins nægur til að bregðast við hverri hættu, sem að steðjar. Þegar lagt var á ráðin um kaup á nýrri flugvél fyrir landhelgisgæsluna, var lögð áhersla á alhliða tækjabúnað til eftirlits um borð í henni. Við eldgosin hefur sannast, hve skynsamleg þessi ákvörðun var. Sama sjónarmið er að baki nýja varðskipsins. Almannavarnakerfinu var breytt með sama hugarfari og sömu sögu er að segja um viðbragðsáætlanir vegna eldgosa í Eyjafjallajökli og Kötlu.