1.4.2010

Fimmtudagur, 01. 04. 10.

Umferðin um Fljótshlíðarveg var gífurlega mikil í dag. Veðrið á gosstöðvunum var bjart og blöstu strókarnir við okkur héðan frá bænum okkar. Stundum mætti ætla, að fréttamenn væru frekar að segja frá spennandi sýningu en lífshættulegum náttúruhamförum.

Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, hefur lagt fram frumvarp til laga um breytingu á samkeppnislögum, þar sem samkeppniseftirliti er heimilað að skipta upp fyrirtækjum með yfirþyrmandi markaðsaðstöðu. Þá hefur samkeppniseftirlitið lagt til að Högum, sem rekur smásölufyrirtæki Baugs hér á landi, verði skipt við sölu Arion-banka á fyrirtækinu.

Í ársbyrjun 2002 urðu orðaskipti á alþingi milli Össurar Skarphéðinssonar og Davíðs Oddssonar um, hvort líða ætti risafyrirtækjum að vera markaðsráðandi. Töldu þeir báðir, að huga ætti að því að skipta þeim með valdboði, ef þau misnotuðu aðstöðu sína. Össur lagði spurningu um þetta fyrir Valgerði Sverrisdóttur, þáv. viðskiptatráðherra, sem sá öll tormerki á því að festa heimild til uppskipta á fyrirtækjum í lög. Taldi hún það brjóta í bága við stjórnarskrá.

Stjórnarskráin er óbreytt en viðskiptaráðherra annar. Skyldi hann hafa aðra lögfræðilega ráðunauta en Valgerður? Varla var hún að gæta hagsmuna stórfyrirtækja?

Ummæli Davíðs um málið á þingi drógu meðal annars þann dilk á eftir sér, að þeir Hreinn Loftsson, stjórnarformaður Baugs, áttu sögufrægan fund í London laugardaginn 26. janúar 2002.