13.4.2010

Þriðjudagur, 13. 04. 10.

Skýrsla rannsóknarnefndarinnar á bankahruninu felur ekki í kröfu um, að stjórnarráðinu sé kollvarpað, skipulagi ríkisstjórnarfunda umturnað eða stjórnsýslureglum breytt. Í skýrslunni felst krafa um, að þeir, sem starfa innan kerfisins, virði settar reglur.

Góð stjórnsýsla krefst formfestu og miðlunar upplýsinga til þeirra, sem rétt eiga til þeirra. Sé þess getið í lögum, að ríkisstjórn skuli koma að ákvörðunum, ber að leggja mál fyrir ríkisstjórn. Almennt séð eru fleiri mál lögð fyrir ríkisstjórn en lög krefjast. Rannsóknarnefndin telur, að ríkisstjórn hafi ekki verið greint frá öllu, sem bar, í aðdraganda bankahrunsins.

Ein ástæða þess, að haldið var á málum á þann veg, sem gert var, er, að forystumenn stjórnarflokkanna héldu málunum hjá sér og réðu ráðum sínum utan ríkisstjórnarfunda. Ég sé ekki, að málum sé öðru vísi háttað hjá þeirri ríkisstjórn, sem nú situr. Þvert á móti hreykir Jóhanna Sigurðardóttir sér af því, að hún hafi komið á fót ráðherranefndum, sem hittist reglulega utan ríkisstjórnarfunda, til dæmis til að ræða efnahagsmál.

Jóhanna og Steingrímur J. eru tvíeyki eins og forystumenn stjórnarflokka hafa verið til þessa.  Miðla þau upplýsingum til ríkisstjórnarinnar um allt, sem þeim ber? Leyndarhyggjan gagnvart almenningi er mikil. Í þessari stjórn eru tveir ráðherrar utan stjórnmálaflokka. Þeir sitja ekki fundi þingflokka, þar sem ríkisstjórnarmálum er oft ráðið efnislega til lykta. Þessir ráðherrar koma ekki að slíkum ákvörðunum. Þeir sitja ekki heldur fundi flokkssystkina í hópi ráðherra.

Í rannsóknarskýrslunni er fundið að skorti á formfestu, þegar ákveðið var, að ríkið keypti 75% hlut í Glitni. Hvað ætli nefndin segði um, hvernig staðið var að gerð Icesave-samninganna undir stjórn Steingríms J. og Svavar? Þá voru þau boð látin út ganga, að ekki væri þörf á ráðum frá breskri lögfræðistofu, af því að þeir Svavar og Indriði H. hefðu fundið sigurformúluna.

Það þarf engar tillögur nefnda utan stjórnarráðsins til að bæta starfshætti þar. Stjórnmálamenn verða hins vegar að sýna settum reglum virðingu og hvetja samstarfsmenn sína til að gera það.