24.4.2010

Laugardagur, 25. 04. 10.

Framsóknarmenn efndu til miðstjórnarfundar í dag, þar sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, flokksformaður, baðst margfaldrar afsökunar fyrir hönd flokksins á bankahruninu. Nýlega ritaði Jón Sigurðsson, fyrrverandi formaður flokksins, grein, þar sem hann velti fyrir sér framtíð hans. Jón er málsvari þess, að Íslendingar gangi í Evrópusambandið, en samkvæmt skoðanakönnunum hefur andstaða aukist við það meðal framsóknarmanna.

Jón Sigurðsson hætti sem seðlabankastjóri og varð iðnaðar- og viðskiptaráðherra 15. júní 2006, þegar Halldór Ásgrímsson hætti sem forsætisráðherra, Geir H. Haarde tók við af honum og Valgerður Sverrisdóttir varð utanríkisráðherra.  Jón og Valgerður voru ásamt Halldóri helstu talsmenn ESB-aðildar  innan Framsóknarflokksins.

Fréttir af miðstjórnarfundinum benda ekki til þess, að þar hafi verið rætt um ESB-málefni. Fundurinn sýnist hafa snúist um tillögur að siðareglum fyrir Framsóknarflokkinn.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, efnir nú til funda um land allt og ræðir stöðu Sjálfstæðisflokksins. Boðað hefur verið aukalandsfundar flokksins í júní til að kjósa varaformann eftir afsögn Þorgerðar Katrínar.

Stjórnarandstöðuflokkarnir eru þannig önnum kafnir við að sinna innri málefnum sínum, sem er vissulega nauðsynlegt. Hitt er ekki síður brýnt að veita ríkisstjórninni aðhald. Þar á bæ eru stunduð vinnubrögð og framfylgt leyndarhyggju, sem er í engu samræmi við boðskapinn í skýrslu rannsóknarnefndar alþingis.