2.4.2010

Föstudagur, 02. 04. 10.

Í kvöld er þungbúið í áttina að Fimmvörðuhálsi og fréttir herma, að lögregla og björgunarsveitir séu að smala fólki ofan af Mýrdalsjökli, því að þar sé ofviðri. Bréfvinur sagði mér, að hann hefði farið á jökulinn í dag. Þar væri troðin braut, eins km breið, fær jeppum á 35 tommu dekkjum eða stærri. Með 5 punda loftþrýsting í dekkjum væri greiðfært. Þessar upplýsingar koma mér að engu gagni, því að ég á ekki slíkan bíl. Kannski finnst einhverjum lesendum síðunnar þetta forvitnilegt og auðveldar þeim ferð að gosstöðvunum, þegar veður leyfir að nýju. Almannavarnayfirvöld sýna mikinn sveigjanleika í ákvörðunum sínum um ferðaheimildir í nágrenni jarðeldanna.