14.4.2010

Miðvikudagur, 14. 04. 10.

Vaknaði klukkan 06.00 í Fljótshlíðinni, leit til Eyjafjallajökuls í átt að gosstöðvunum á Fimmvörðuhálsi, eins og ég er vanur, frá því að gosið hófst. Ekkert sást, enda dimmviðri í austurátt. Ég kveikti ekki á útvarpinu fyrr en rétt fyrir átta, til að hlusta á fréttir. Þá heyrði ég, að fréttamenn hefðu verið á vakt alla nóttina vegna gruns manna um, að gos væri hafið í Eyjafjallajökli.  Vatn kemur undan Gígjökli í lón norðan við Eyjafjallajökul.  Vatn hækkar í Markarfljóti. Í fréttunum klukkan 09.00 var skýrt frá því, að sigdæld hefði sést á jökulhettunni suðvestan við gíginn í jöklinum. Gosið þarf að brjóta sig í gegnum 200 til 250 m íshettu að sögn Helga Björnssonar, jöklafræðings.

Ég fór út á stéttina fyrir framan húsið og horfði til jökulsins. Það gekk á með éljum en á milli birti og um níu leytið sá ég mikinn gosmökk stíga upp af jöklinum og blés vindur í háloftunum honum í norður.

Fréttamenn sögðu, að almannavarnaáætlun hefði verið virkjuð og fólk kallað til skráningar á Hvolsvelli, þar sem ég bý í hlíðinni og þarf því ekki að óttast að flæði hjá mér, var ég ekki vakinn í nótt.  Á ruv.is var skráð um klukkan 04.38, að lögreglan á Hvolsvelli hefði lokað fyrir umferð um Suðurlandsveg austan við Hvolsvöll og við Skóga. Fjöldahjálparstöðvar hefðu verið opnaðar. Rauði krossinn, björgunarsveitir og aðrir viðbragðsaðilar hefðu verið virkjaðir. Einkennileg kyrrð er yfir öllu. Magnús Tumi Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur, sagði gosðið hafa farið af stað milli sex og sjö um morguninn.

Þegar þetta er skrifað, klukkan 09.50 hefur dregið fyrir sólu vegna éljagangs. Ég bíð eftir því, að jökullinn hreinsi sig og þá sjáist, hvar mökkurinn rís upp af honum.

Um klukkan 10.20 ók ég út á Hvolsvöll, þar sem ég rak erindi. Þegar ég ætlaði að aka heim aftur, var lögregla á veginum skammt fyrir austan afleggjarann að Velli. Ég fékk að aka áfram, eftir að ég hafði farið á lögreglustöðina og fengið fararleyfi. Nú sit ég hér kl. rúmlega 12.00. Í sjónauka sé ég vatn og ís fossa norður af jöklinum og yfirborð Markarfljóts er orðið svo hátt, að ég sé fljótið héðan að heiman.  Í þessum skrifuðu orðum hefur vatnsborðið lækkað aftur, þannig að fyrsta holskeflan hefur kannski náð út í sjó en vegurinn var rofinn við Markarfljótsbrúna til að vernda hana.

Nágranni minn hér í hlíðinni hringdi og tilkynnti mér, að ákveðið hefði verið að aflýsa fundi, sem Heimssýn ætlaði að efna til á Hvolsvelli kvöld, þar sem ég átti að hafa framsögu ásamt Jóni Sigurðssyni, fyrrv. formanni Framsóknarflokksins. Var það samdóma álit, að ekki væri unnt að stefna fólki saman til fundar við þessar aðstæður. Í símtalinu sagðist hann ekki muna eftir að hafa séð Markarfljótið svona stórt, það væri eins og fjörður á að líta heiman frá sér.

Klukkan 13.50 hafði fréttamaður RÚV eftir vantamælingamanni, að hlaupið í Markarfljóti hefði náð hámarki, enda sést ekki vatnsboirðið héðan frá mér, þegar þetta er skrifað klukkan 13.56.  Varnargarðar hafa haldið. Rétt fyrir klukkan 14.00 auglýsti Heimssýn að fundinum á Hvolsvelli í kvöld væri aflýst vegna gossins í Eyjafjallajökli.

Ég fór að nýju út á Hvolsvöll um klukkan 16.30. Þá var enn varsla á veginum í Fljótshlíð og þeim aðeins leyft að aka um hann, sem áttu viðurkennt erindi. Um svipað leyti og ég ók til baka eða um kl. 17.00 var tilkynnt, að slakað hefði verið á ferðatakmörkunum en fólk á nokkrum bæjum yrði látið sofa annars staðar en heima hjá sér af ótta við, að snögglega gæti vaxið í Markarfljóti.

Það sást ekki til gosstöðvanna í jöklinum úr Fljótshlíðinni, þar sem ský hvíldu yfir jöklinum og enginn eldsbjarmi, eftir að dimmdi.