Fimmtudagur, 08. 04. 10.
Áminningarmál Álfheiðar er tekið undarlegum tökum af þeim talsmönnum Háskóla Íslands, sem kallaðir eru til álitsgjafar af fréttastofu RÚV. Á ruv.is má lesa:
„Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði, segir samskipti heilbrigðisráðherra og forstjóra Sjúkratrygginga Íslands benda til þess að málið eigi sér forsögu. Samskipti þeirra séu mun harkalegri en eðlilegt megi teljast í opinberri stjórnsýslu. Tilefni áminningarinnar sé ansi lítið. ...
Gunnar Helgi telur að staða heilbrigðisráðherra hafi ekki veikst, þó hún hafi gengið hart fram í málinu. Á meðan hún hafi pólitískan stuðning innan eigin flokks og ríkisstjórnarinnar sé ólíklegt að þetta hafi áhrif.“
Prófessorinn kemur með þann „vinkil“ eða spuna í málið, að eitthvað meira sé á bakvið áminningarhótun Álfheiðar en fyrir liggi. Hvað er hann að fara með því? Auðvelt er að álykta á þann veg, að hann sé að bera blak af Álfheiði með þessum orðum. Styrkist sú ályktun, þegar hann segir Álfheiði ekki hafa veikst á ráðherrastóli, eftir að hafa fengið meiri ofanígjöf frá ríkisendurskoðun en dæmi eru um.
Steingrímur Ari hefur svarað hótun Álfheiðar um áminningu og hafnar því, að nokkur rök séu fyrir henni. Ætli ráðherra að áminna embættismann, verður hann að tilgreina, hvers vegna það er gert. Ekki er unnt að vísa til einhverrar „forsögu“, eins og Gunnar Helgi gerir.
Dr. Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir bloggar á þann veg um málið í dag, að ætla má, að hún vilji, að ríkisendurskoðandi víki fyrir að hafa mótmælt vinnubrögðum Álfheiðar. Sigurbjörg sóttist á sínum tíma eftir starfi Steingríms Ara og væri henni helst til sóma, að blanda sér ekki í þessar umræður sökum vanhæfis.
Líklegast er, að stjórnmálafræðingarnir innan Háskóla Íslands séu að bregða mildum blæ á ofstopa Álfheiðar til að létta á þungum kröfum á hendur Jóhönnu Sigurðardóttur um, að hún víki Álfheiði úr ríkisstjórninni. Þeir, sem hafa kynnt sér ótal þingræður Jóhönnu um ábyrgð ráðherra og kröfur hennar um, að ráðherrar axli ábyrgð, átta sig á því, að aðhafist Jóhanna ekki neitt í þessu máli, verði hún í raun samábyrg Álfheiði á forkastanlegum vinnubrögðum.