4.7.2006 8:38

Þriðjudagur, 04. 07. 06.

Eftir að hafa setið fundi fram eftir degi og síðan hitt blaðamann frá Le Monde ákváð ég að skreppa austur í Fljótshlíð. Á leiðinni var rigningin stundum svo mikil, að minnti helst á skýfall eftir þrumur og eldingar, þótt ekki yrðum við þeirra vör.

Allt er seinna en undanfarin ár í heypskapnum vegna ótíðarinnar og nú sést hér varla til næstu bæja vegna dimmviðris og rigningar.

Ég spurði franska blaðamanninn um stöðu Le Monde, sem lýtur að meirihluta eignarhaldi starfsmanna við blaðið og blaðamenn ráða þar meiru en almennt gerist á dagblöðum. Hann sagði hag blaðsins vissulega hafa þrengst eins og annarra prentmiðla en blaðið stæði enn vel fyrir sínu.

Í morgun hlustaði ég á viðtal Sveins Helgasonar á Morgunvakt rásar 1 við Styrmi Gunnarsson, ritstjóra Morgunblaðsins, í tilefni af því, að ritstjórnarskrifstofur blaðsins eru fluttar í Hádegismóa. Ég tók eftir því, að Styrmir sagðist ekki lengur hafa neina skrifstofu á blaðinu heldur sæti í stórum vinnusal blaðamanna og þótti það góð tilbreyting frá því, sem áður var. Einnig sagði hann, að fundir hans með öðrum stjórnendum ritstjórnar væru opnir öllum blaðamönnum, ef ekki öllum starfsmönnum blaðsins, auk þess sem hann hefði gefið fyrirheit um að auka hlut kvenna í forystu á ritstjórn blaðsins.

Í gær las ég viðtal í Berlingske Tidende við Bretann, sem er að kaupa blaðið af Orkla og býr sig undir að keppa við Baugsfyrirtækið Dagsbrún, eins og það er kynnt í Danmörku. Þar telst til nauðsynlegra upplýsinga að kenna fyrirtæki við höfuðeiganda sinn. Spurning er, hvort Baugsmenn líta á þessa einkunn Dagsbrúnar í Danmörku sem ögrun í sinn garð, eins og þeir gera hér.

Dagsbrún býr sig eins og kunnugt er undir að hefja útgáfu á fríðblaðinu Nyhedsavisen  og dreifa inn á heimili Dana. Greinilegt er, að hinn nýi eigandi á Berlingi býr sig undir stríð á danska blaðamarkaðnum. Er augljóst, að meiri viðbúnaður er þar vegna hins nýja fríblaðs en var hér, áður en Fréttablaðið  kom til sögunnar. Þá sá ég viðtal við Gunnar Smára Egilsson, útrásarstjóra Dagsbrúnar, í Berlingi og sagðist hann vera að velta fyrir sér fleiri mörkuðum í Evrópu, þar sem íbúafjöldi landa væri undir 10 milljónum.

Heyrði í 22.00 fréttum sjónvarps ríkisins, að þar eru menn þeirrar skoðunar, eftir að hafa lesið skýrslu bandaríska sendiráðsins, að einhver vafi leiki á því, hvernig staðið er að baráttu gegn mansali hér á landi og hvaða ráðuneyti koma þar að málum. Afskipti af hálfu ráðuneyta ráðast af þeim aðgerðum, sem gripið er til hverju sinni, ef um félagsleg úrræði er að ræða eða spurningu um atvinnuleyfi snertir það félagsmálaráðuneyti ef um lögreglumál eða refsimál er að ræða kann dóms- og kirkjumálaráðuneytið að koma við sögu.

Mansal var rætt á alþingi á liðnum vetri í tengslum við frumvörp, sem ég flutti og í umræðum um breytingu á almennum hegningarlögum sagði Bjarni Benediktsson, formaður allsherjarnefndar, meðal annars:

„Hér er mansalið gert að umtalsefni. Eins og hv. þingmaður veit höfum við á umliðnum árum innleitt í refsilöggjöfina sérstök ákvæði til þess að sporna við mansali. Það hefur verið gripið til sérstakra aðgerða og eins og hv. þingmaður réttilega benti á tengist mansalið yfirleitt skipulagðri glæpastarfsemi. Skipuleg glæpastarfsemi er einmitt nákvæmlega sama orðið og notað er í öðru frumvarpi sem liggur hér fyrir þinginu þar sem fjallað er um greiningardeildir. Það hefur aldeilis heyrst hljóð frá stjórnarandstöðunni vegna greiningardeildanna sem einmitt er ætlað að rannsaka skipulagða glæpastarfsemi og skila áhættumati út af þeim. En miðað við þau orð sem hér féllu um nauðsyn þess að berjast gegn skipulagðri glæpastarfsemi treysti ég því að hv. þingmaður hafi ekki út á það að setja að ríkislögreglustjóra verði veittar auknar heimildir til að gera það áhættumat sem þarf til að sporna við þeim vanda sem skipuleg glæpastarfsemi er, hvort sem þar er um að ræða fíkniefni, mansal eða aðra starfsemi sem flýtur yfir landamæri og við höfum orðið vör við í auknum mæli hér á landi."

Ég sagði í viðtali við Fréttablaðið, sem bar ummæli í skýrslu bandaríska sendiráðsins undir mig, en þar er meðal annars lagt mat á skoðun mína á mansali, að enginn frá sendiráðinu hefði rætt þessi mál við mig og ég skildi ekki hvernig unnt væri að álykta á þann veg um afstöðu mína og gert væri í skýrslunni. Ég hef ekki lesið skýrsluna og mér heyrðist á fréttum sjónvarpsins í kvöld, að ég þyrfti að minnsta kosti ekki að gera það, til að fræðast neitt um verkaskiptingu á þessu sviði innan stjórnarráðsins. Ég hef lagt á það áherslu, að lögreglan fái sem best tæki og heimildir til að takast á við mansal og annað, sem tengist skipulagðri glæpastarfsemi. Þar skiptir greining og mat á áhættu miklu.