29.7.2006 12:18

Laugardagur, 29. 07. 06.

Ég varð undrandi, þegar ég las útleggingu Guðna Elíssonar, bókmenntafræðings, í Lesbók Morgunblaðsins á grein minni um kalda stríðið í þessari sömu Lesbók laugardaginn 22. júlí. Ég ræði útúrsnúninga Guðna í pistli mínum, sem ég setti á vefsíðuna í dag.

Í Lesbókinni í dag, 29. júlí, birtist viðtal Heimis Björgúlfssonar við bandaríska listamanninn Jason Rhoades, sem hélt hér sýningar árið 2004. Um Ísland segir Jason: „En það sem mér fannst ótrúlegt er að það er Evrópa en það er alls ekki eins og Evrópa, Ísland er eins og Bandaríkin.“ Heimir spyr: „Nákvæmlega það sem ber mig að næstu spurningu, fannst þér vera meiri amerísk áhrif á Íslandi en annars staðar í Evrópu?“ Jason svarar: „Já algerlega. Ísland hallar sér að Ameríku en veit samt að það er í Evrópu. Maturinn er líka hræðilegur eins og amerískur matur, eins og steiktur fitugur matsölustaðamatur.“

Forsíða Lesbókarinnar er helguð grein Heimis og tvær síður inni í blaði, þannig að meginkjarni þessa tölublaðs Lesbókarinnar snýst um bandaríska listsköpun og listamann, sem að vísu er sagður hafa áunnið sér jafnvel stærra nafn í Evrópu en heimalandi sínu.

Þegar lesið er framlag blaðamanna Morgunblaðsins og fastra penna Lesbókarinnar í þessu tölublaði Lesbókarinnar, sést, að það snýst að mestu um bandaríska menningu. Heiða Jóhannsdóttir veltir fyrir sér, hver séu áhrif þess, ef bandarískir samtímahöfundar vilji ekkert með það hafa að kallast fulltrúar sinnar kynslóðar. Höskuldur Ólafsson ritar um bandaríska rithöfundinn Philip Roth. Björn Þór Vilhjálmsson leitar svara við því, hvað sé íslensk kvikmynd með því að nota A Little Trip to Heaven eftir Baltasar Kormák sem kvarða, en frásagnarformgerð hennar telur Björn Þór falla að „bandarískri fyrirmynd“. Heiða Jóhannsdóttir skrifar um Róbert Altman í tilefni af því að hann fékk heiðursóskarsverðlaunin sl. vetur. Steinunn Haraldsdóttir skrifar í dálki um poppklassík um Boston-sveitina Throwing Muses. Arnar Eggert Thoroddsen ritar nýjustu plötu Lisu Germano, sem er sögð hafa flutt til Hollywood og farið að vinna í bókabúð.

Læsi Jason Rhoades þetta tölublað Lesbókarinnar teldi hann sig örugglega finna ný rök fyrir þeirri skoðun sinni, að amerísku áhrifin séu hér mikil og Íslendingar halli sér að Ameríku, þótt þeir viti, að þeir séu í Evrópu.