26.7.2006 19:24

Miðvikudagur 26. 07. 06.

Hélt frá Brussel með SAS á áætlun klukkan 10.40 til Kaupmannahafnar, þar sem 30 mínútna töf var á brottför Icelandair-vélarinnar, sem lenti á Keflavíkurflugvelli kl. 15.30.

Það var gott að koma út í svalann eftir meira en 30 stiga hita í Brussel.

Þegar ég las blöðin við heimkomuna, sá ég, að Eiríkur Bergmann Einarsson, dálkahöfundur á Blaðinu, bar sig illa undan því, sem sagði í grein minni um kalda stríðið í Lesbók Morgunblaðsins, þegar ég velti  fyrir mér, hvort umræðuhefðin hefði breyst að loknu kalda stríðinu og dró það í efa, meðal annars með þessum orðum: „Andúð á Bandaríkjunum. Í nýlegri blaðagrein segir Eiríkur Bergmann Einarsson, forstöðumaður Evrópufræðaseturs Viðskiptaháskólans á Bifröst, Bandaríkin hafa „svo gott sem breyst í lögregluríki“.“

Eiríkur Bergmann segir mig „saka“ sig um andúð á Bandaríkjunum með þessum orðum. Ég spyr: Hvað er það annað en andúð að segja ríki hafa „svo gott sem breyst í lögregluríki“?

Í Blaðinu þriðjudaginn 25. júlí segist Eiríkur Bergmann vera „einlægur aðdáandi Bandaríkjanna“. Hann hafi hins vegar „sitthvað að athuga við aðgerðir núverandi stjórnvalda, sérstaklega þegar kemur að hinu svokallaða stríði gegn hryðjuverkum.“ Honum finnst athuganir bandarískra landamæravarða við komu til Bandaríkjanna of miklar, fingraför og ljósmynd í gagnagrunn. „Lögregluþjónar og hermenn standa nú gráir fyrir járnum út um allar trissur og fjölmiðlarnir ala á óttanum allan sólarhringinn.“ Undir lok greinarinnar segir: „Í skjóli óttans hafa stjórnvöld svo smám saman þrengt að lýðréttindum Bandaríkjamanna, til að mynda með hinum svokölluðu föðurlandslögum sem veita yfirvöldum heimild til að auka allt eftirlit með þegnum sínum.“

Þetta eru sem sagt rök Eiríks Bergmanns fyrir því, að Bandaríkin hafi „svo gott sem breyst í lögregluríki“. Nú er Eiríkur Bergmann eins og kunnugt er sérfróður um málefni Evrópu og aðildarríkja Evrópusambandsins. Fróðlegt væri að fá mat hans á löggjöf og viðbrögðum Evrópuríkja, til dæmis Bretlands og Frakklands, við hættunni á hryðjuverkum.