3.7.2006 21:36

Mánudagur, 03. 07. 06.

Fékk í dag í hendur tvo hljómdiska, sem Karmelnunnur í Hafnarfirði hafa gefið út - fyrri diskurinn hefur að geyma pólsk lög en hinn seinni Davíðssálma. Þeim fylgir glæsilegur bæklingur, þar sem Karmelreglunni er lýst í fáum orðum og birtir textar pólsku laganna auk fallegra mynda frá Íslandi, sem nunnurnar hafa tekið. Við Gunnar Eyjólfsson höfum aðstoðað þær lítillega við útgáfuna ásamt Óttari Felix Haukssyni en Páll Sveinn Guðmundsson var hljóðmeistari. Diskarnir eru saman í öskju og er unnt að kaupa þá í Karmelklaustrinu í Hafnarfirði. Vona ég, að tónlistin verði sem flestum til gleði og blessunar.

Eiríkur Bergmann Einarsson, stjórnmálafræðingur og einn ötulasti málsvari Evrópusambandsins hér á landi, ritar grein í Blaðið í dag undir fyrirsögninni: Leyniþjónusta Björns Bjarnasonar. Hún er skrifuð af vinstrisinnaðri meinfýsi í minn garð, enda segir Evrópusérfræðingurinn, að hann átti sig „ekki alveg á hvað þessi þjóðaröryggisdeild, sem dómsmálaráðherra boðar nú samkvæmt skýrslu tveggja evrópska (sic!) sérfræðinga, á eiginlega að gera."

Vek athygli á feitletruðu orðunum - ég boðaði ekki þessa deild heldur er hún kynnt til sögunnar af tveimur sérfræðingum ráðherraráðs Evrópusambandsins í hryðjuverkavörnum og er að þeirra mati forsenda fyrir því, að við getum slegist í hóp Evrópusambandsríkja á þessu sviði. Ég minnist þess ekki, að Eiríkur Bergmann hafi ekki áttað sig á boðskapnum frá Brussel - einu sinni verður allt fyrst.

Til að útlista áhyggjur sínar vegna skýrslunnar frá Brussel kýs Eiríkur Bergmann að skeyta skapi sínu enn einu sinni á Bandaríkjunum og segir „eftir hryðjuverkaárásirnar 11. september hefur það ágæta land svo gott sem breyst í lögregluríki." Enn sannast að Bandaríkjaóvild vinstrisinna er ekki bundin við kalda stríðið - og raunar er með öllu óþarft að draga upp þá mynd, að þessi óvild hafi verið ómálefnalegri þá en nú á tímum.

Það er rétt hjá Eiríki Bergmann, að við dr. Niels Bracke, annar skýrsluhöfunda, erum ekki sammála um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Það kemur bara ekkert þessu máli við og setur engan skugga á samstarf okkar. - Ég bað dr. Bracke að líta til þessa þáttar í öryggiskerfi íslensku þjóðarinnar vegna yfirburðaþekkingar hans á þessu sviði. Tillaga hans er skýr og hana ber að ræða af meiri víðsýni en Eiríkur Bergmann getur. Dr. Bracke ætlar svo að koma hingað aftur  í september með sérfræðingum Evrópusambandsins og tala á ráðstefnu sem Evrópunefndin og Viðskiptaháskólinn á Bifröst hafa undirbúið og mun snúast um samstarfið undir merkjum Schengen-samningsins, þriðju stoð Evrópusambandsins og EES-samstarfið.