10.7.2006 20:42

Mánudagur, 10. 07. 06.

Þrjú stór skemmtiferðaskip hafa siglt úr Sundahöfn út Faxaflóann í kvöldblíðunni. Ég man ekki eftir að hafa séð jafmargar rútur með ferðamenn við Perluna og nú um sexleytið, en þær höfðu þá farið með ferðalangana að Gullfossi og Geysi og um Þingvelli fyrr um daginn.

Stefán Eiríksson, nýskipaður lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, hefur verið önnum kafinn síðan tilkynnt var um skipunina sl. föstudag að svara spruningum fréttamanna um endurskipulagningu lögregluliðanna og framtíðaráformin. Hann bendir réttilega á nauðsyn þess að gera hér ráðstafanir til að bregðast við skipulagðri glæpastarfi og efla greiningu og mat á áhættu af hálfu lögreglu.

Ég undrast að lesa allt það, sem blaðamönnum eða dálkahöfundum dettur í hug að segja eða setja á blað til að ýta undir tortryggni í garð matsskýrslu sérfræðinga Evrópsambandsins í hryðjuverkavörnum og tillagna þeirra um að efla enn frekar greiningarþáttinn í starfi lögreglunnar hér á landi, svo að hún standi jafnfætis lögregluliðum annarra landa.

Aðalbjörn Sigurðssonm fréttastjóri Blaðsins, skrifar hugleiðingu í Blaðið í dag undir fyrirsögninni: Stjórnað með hræðslu. Henni lýkur á þessum orðum:

„Mér sýnist hinsvegar að nú vilji menn fara að ala meira á ótta en áður var. Stofna á einhverja illskilgreinanlega „leyniþjónustu" hér á landi til að bregðast við mögulegum hryðjuverkum og öðrum illvirkjum. Það er kannski óábyrgt að halda þessu fram en í þessu tilfelli tel ég að það eigi ekki að byrgja brunninn fyrr en barnið er dottið ofaní. Að sjá skrattann í hverju horni næstu árin og búiast stöðugt við hinu versta er hreinlega ekki hollt fyrir þjóðarsálina."

Eitt orð er þarna feitletrað af mér til að undirstrika boðskapinn. Telur fréttastjórinn, að sérfræðingar Evrópusambandsins hafi verið að skrifa skýrslu sína til að hræða Íslendinga? Ef svo er, af hverju í ósköpunum? Hvað skyldi þurfa að hafa orðið mikið manntjón hér af mannavöldum, áður en fréttastjórinn teldi skynsamlegat að bregðast við ráðum sérfræðinga um, að lögregla hér á landi hafi sömu heimildir til að gæta öryggis borgaranna og tíðkast í öðrum löndum?