20.7.2006 22:02

Fimmtudagur, 20. 07. 06.

Klukkan 15.00 var ég í björgunarmiðstöðinni Skógarhlíð og tók þar á móti Nicole Michelangeli, sendiherra Frakklands, og og Yves Postec, skipherra á frönsku freigátunni Primauguet, sem er í Reykjavíkurhöfn. Fórum við í kynnisferð um stöðina undir leiðsögn fulltrúa þeirra stofnana, sem þar starfa.

Hinn ritglaði Samfylkingarþingmaður Björgvin G. Sigurðsson telur mig hafa verið með „yfirgang og bulluhátt“, þegar ég gat mér þess til hér á síðunni í dagbókarfærslu mánudaginn 17. júlí, að Björgvin hefði ráðfært sig við Össur Skarphéðinsson, leiðtoga sinn innan Samfylkingarinnar, áður en hann réðst á Margeréti S. Björnsdóttur í grein í Morgunblaðinu þennan sama mánudag. Segir Björgvin, að hann hafi ekkert ráðfært sig við Össur, sem hafi ekki vitað um grein sína, fyrr en hún birtist í blaðinu.

Ég bið Björgvin afsökunar á að hafa ályktað á þann veg, sem ég gerði í dagbókarfærslu minni. Uppljóstrun Björgvins um skort hans á samráði við Össur dregur hins vegar mjög úr gildi greinar hans, hún verður aðeins að enn einu dæminu um, að Björgvin bregst aldrei vondum málstað og er til þess búinn að lýsa því yfir á prenti.

Í Morgunblaðinu í dag lýsir Stefán Jón Hafstein, borgarfulltrúi og fyrrverandi formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar, stuðningi við sjónarmið Margrétar S. Björnsdóttur. Hvers vegna ætli Össur segi ekki neitt um grein Margrétar? Hvers vegna skyldu skjólstæðingar Össurar vilja árétta, að hann sé ekki endilega ósammála Margréti, þótt þeir séu það?