2.7.2006 21:51

Sunnudagur, 02. 07. 06.

Fórum klukkan 17.00 í Gerðarsafn, þar sem opnuð var sýning á Kjarvalsverkum í Landsbanka Íslands í tilefni af 120 ára afmæli bankans.

Í Morgunblaðinu í dag birtist lesendabréf eftir Tryggva Gíslason, fyrrverandi skólameistara Menntaskólans á Akureyri, en hann titlar sig sem fyrrverandi fréttamann RÚV undir bréfinu en þar segir:

„Enn einu sinni hef ég orðið vitni að því, að starfsmaður Ríkisútvarpsins gerir sér mannamun, gerir upp á milli manna - nú í viðtali í Kastljósi við Björn Bjarnason dómsmálaráðherra fimmtudagskvöld 29da júní 2006. Dæmin eru því miður mörg. Að svo komnu máli nefni ég hins vegar ekki nöfn. En það er krafa okkar „hollvina Ríkisútvarpsins", að fréttamenn sýni öllum viðmælendum sínum sömu virðingu, enda þótt þeir kunni að vera ósammála viðmælanda. Skoðanir fréttamanna koma okkur nefnilega ekkert við - og skulu hvorki koma fram í orðum né athöfnum - viðmóti -fréttamannsins. Til þess að stuðla að frjálsri skoðanamyndun, undirstöðu lýðræðis, á ríkisfjölmiðill eins og Ríkisútvarpið að koma eins fram við alla, einfaldlega af því að allir eiga að vera jafnir fyrir lögunum og Ríkisútvarpinu. "

Ég skil þetta bréf á þann veg, að Tryggva hafi þótt Eyrún Magnúsdóttir, Kastljós-starfsmaður, sækja þannig að mér í þessum þætti, að hún gætti ekki óhlutdrægni. Ég hef heyrt fleiri lýsa svipaðri skoðun. Svo virðist sem gagnvart sumum viðmælendum telji fréttamenn það einhverju skipta fyrir sig að láta eins og þeir geti komið viðmælendum sínum í vanda með spurningum eða viðmóti. Mér finnst þetta bera vott um öryggisleysi eða skort á vitneskju um það mál, sem er til umræðu hverju sinni.

Rétt er að halda því til haga að Kristófer Helgason ræddi við mig á Bylgjunni síðdegis 29. júní og síðan voru hlustendur spurðir: „Ertu hlynt(ur) stofnun þjóðaröryggisdeildar til að berjast gegn hryðjuverkum og alþjóðlegri glæpastarfsemi á Íslandi?"

Já sögðu 54%.

Nei sögðu 46%.